beint flug til Færeyja

Upplýsingatregða Akureyrarbæjar

Upplýsingatregða Akureyrarbæjar

Einar Brynjólfsson skrifar:

Eins og glögga lesendur Vikublaðsins (og Vikudags) rekur eflaust minni til, hef ég reynt undanfarin misseri að kría upplýsingar út úr Akureyrarbæ varðandi kostnað vegna misheppnaðra ákvarðana í tengslum við starfsmannahald bæjarins (mál Snæfríðar Ingadóttur og mál Péturs Þórs Jónassonar).

Þær upplýsingar skiluðu sér um síðir og leiddu í ljós kostnað upp á tugi milljóna. Í kjölfar þess krafði ég Akureyrarbæ um kostnað vegna allra málaferla bæjarins á tilteknu tímabili. Þá upphófst einhver sú furðulegasta atburðarás sem ég hef kynnst. Bæjarlögmaður setti allt í lás og hafnaði allri upplýsingagjöf.

Þá greip ég til þess ráðs að kæra þær málalyktir til Úrskurðarnefndar upplýsingamála, sem úrskurðaði mér í hag. Þrátt fyrir það hafnaði bæjarlögmaður að afhenda mér umbeðnar upplýsingar, þar sem ég hefði ekki tilgreint þau málaferli sem ég vildi fá upplýsingar um. Auðvitað gat ég ekki tilgreint nein málaferli, enda sneri upplýsingabeiðnin einmitt að því, þ.e. í hvaða málaferlum Akureyrarbær hefði staðið á umræddu tímabili.

Eftir nokkurt stapp gaf bæjarlögmaður sig og sendi mér umbeðnar upplýsingar. Upp úr dúrnum komu fjögur mál. Þar af voru tvö þeirra mér kunn, þ.e. mál Snæfríðar og Péturs Þórs. Kostnaður vegna hinna málanna reyndist vera tæpar tvær milljónir. Þetta voru áhugaverðar málalyktir, svona í ljósi þess hversu fá mál reyndist vera um að ræða. Mér er lífsins ómögulegt að skilja svona furðulega tregðu kerfisins og vil því birta hér nokkrar spurningar sem ég sendi bæjarlögmanni í tölvupósti snemma á þessu ári. Ég fékk engin svör við þeim þá og á satt að segja ekki von á svari við þeim þó ég birti þær hér.

Meðal þeirra voru: 1. Hvers vegna voru þessar upplýsingar ekki tíndar til strax í upphafi og sendar mér, svona í ljósi þess hve fá mál var um að ræða? 2. Er þetta vinnulag algilt þegar Akureyrarbæ berast óskir um upplýsingar um kostnað við tiltekin verk? 3. Telst þetta vinnulag í samræmi við Upplýsingastefnu Akureyrarbæjar 2019-2022, en þar stendur m.a.: „Markviss miðlun upplýsinga og skýr viðmið um svörun erinda auðvelda aðhald að stjórnsýslunni … Um leið eykst traust almennings á stjórnsýslunni“? 4. Getur hugsast að meiri tími fari í að „verjast“ þessari fyrirspurn minni, t.d. með því að skrifa ítarlega greinargerð til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál, en að tína til upplýsingarnar sem ég bað um? 5. Er verið að fela eitthvað sem ekki þolir dagsins ljós? Að lokum má geta þess að bæjarlögmaður virti sjaldnast lögboðna tímafresti í þessu máli, en það er nú annar handleggur. Mér finnst að kerfin eiga að vinna fyrir borgarana, ekki gegn þeim!

Höfundur er fúll útsvarsgreiðandi og oddviti Pírata í Norðausturkjördæmi við Alþingiskosningarnar þann 25. september.

Sambíó

UMMÆLI