Upplýsingmiðstöð á Akureyri opnuð aftur

Upplýsingmiðstöð á Akureyri opnuð aftur

Upplýsingamiðstöðin í Hofi hefur verið opnuð aftur eftir nokkurt hlé. Þetta kemur fram á vef bæjarins í dag. Þar segir að fyrst um sinn verði opið alla virka daga frá klukkan 08.00 til 16.00 og í bígerð sé að hafa einnig afgreiðslutíma um helgar þegar líður á sumarið.

Nýja upplýsingmiðstöðin veitir fyrst og fremst upplýsingar um Akureyri, Grímsey og Hrísey. Þar verða kort og bæklingar um bæinn og eyjarnar tvær en einnig bæklingar sem ná yfir allt Ísland. Ferðaþjónustuaðilum í næsta nágrenni við Akureyri er boðið að koma með bæklinga í upplýsingamiðstöðina en plássið er sagt mjög takmarkað og því verður ekki hægt að bjóða fyrirtækjum í sveitarfélögum sem liggja fjær Akureyri að vera með efni þar.

Það eru Akureyrarhöfn, Menningarfélag Akureyrar, hönnunar- og gjafavöruverslunin Kista og Akureyrarbær sem hafa tekið höndum saman og standa að rekstri upplýsingamiðstöðvarinnar en ríkið hætti sem kunnugt er stuðningi við reksturinn fyrir um tveim árum og hefur starfsemin legið niðri af þeim sökum.

Sambíó

UMMÆLI