NTC

Út fyrir sviga

Út fyrir sviga

Sonja Rún Magnúsdóttir skrifar

Á löngum ferli mínum sem geðsjúklingur hef ég lært eitt og annað um sjálfa mig, veikindi mín og einnig bata-útgáfuna af mér. Á mun styttri ferli sem starfskraftur í geðúrræði og sálfræðinemi hef ég lært margt af því sama nema frá öðru sjónarhorni. Munurinn þar á milli er að sem starfskraftur er ég að leita uppi efni, verkfæri og úrlausnir fyrir aðra. Og þó ég segi sjálf frá er ég ágætlega hæf í þeim efnum.

Það hljómar því líklega barnalega þegar ég segi að eftir að ég fór að vinna í geðúrræði hélt ég að ég væri á einhvern hátt óhult. Ég lifi og hrærist í geðrækt, núvitund, hugleiðslu, virkni, jafningjastuðningi, og öðru sem stuðlar að góðri geðheilsu. En eins og fleiri fagaðilar í geðúrræðum myndu líklega taka undir er það ekki sami hluturinn að hugsa um, tala um, hlusta á og skrifa um geðheilsuna, og að hlúa að eigin þörfum. Þessa staðreynd hef ég rekið mig harkalega á, oftar en einu sinni, og skildi í raun ekki af hverju það að lifa og hrærast í þessum heimi sem ég brenn svo heitt fyrir væri ekki bara nóg. Ég notaðist við þau bjargráð sem ég hef komið mér upp í gegnum árin og leitaði mér sálfræðihjálpar þegar mér fannst ég þurfa en klessti samt sem áður á vegg. Þegar kemur að geðrænum veikindum þarf stundum meira til. Það er ekki þar með sagt að maður geti ekki lifað góðu og fullnægjandi lífi þó maður hafi einhvern tíman verið greindur með geðsjúkdóm. En rétt eins og með líkamlega sjúkdóma þurfum við oft aðeins meira til að viðhalda því. Hvort sem það sé samtalsmeðferð, lyf, jafningjastuðningur, hópastarf, lífstílsbreytingar, eitthvað annað eða samblanda af þessu öllu, þá er þetta ákveðin jafnvægisæfing. Eins og geðhjúkrunarfræðingur sagði við mig eitt sinn – það skiptir ekki öllu máli hvað fer fram hjá lækninum, heldur skiptir mestu máli hvað við gerum sjálf alla hina dagana.

„Af hverju erum við svona góð í að gefa ráð en ekki að fara eftir okkar eigin?“ er spurning sem hefur oft komið upp í samtölum mínum við aðra aðila með lifaða reynslu af geðrænum áskorunum og röskunum. Hægt er að þýða þessa spurningu sem; „af hverju er ég fær um að hjálpa öðrum en ekki sjálfri mér?“ Við getum verið ansi fljót að hoppa upp og gefa ráðleggingar og veita stuðning – jafnvel við einstaklinga sem hafa engan áhuga á þeim – sem við tileinkum okkur ekki sjálf. Af hverju ætli það sé?

Ég get að sjálfsögðu ekki svarað fyrir annað fólk en hjá mér er það blanda af innri og ytri þáttum sem hafa mótað mig í gegnum tíðina, kryddað með dassi af klassískri þrjósku og þversögninni um að „ég ætti bara að vera komin með þetta á hreint!“ En það er þetta með hegðunarmynstur sem verða oft til yfir margra ára tímabil – það tekur tíma að vinda ofan af þeim. Og það gerist ekki nema með staðfestu og seiglu. En ég er ekki að skrifa þetta til þess að gefa ykkur ráð, eða til þess að þykjast vera með veikindi mín eða heilsu á hreinu. Þetta er áminning um að hlusta á ykkur sjálf – það getur verið ansi gott fyrir geðheilsuna að hjálpa öðrum, en það besta fyrir hana er að hjálpa okkur sjálfum.

Ég mæli með að prufa að taka ykkur út fyrir sviga. Að þykjast vera að hjálpa vini ykkar sem er að fara í gegnum erfitt tímabil. Hvað myndirðu gera til þess að hjálpa honum? Þú sýnir skilning, ert til staðar, getur jafnvel deilt því sem hefur virkað fyrir þig í fortíðinni. Settu þig svo aftur inn í svigann og sýndu þér skilning, gríptu í bjargráðin sem hafa nýst þér áður eða lærðu ný, það er aldrei að vita nema að ráðin þín virki bara ágætlega. Ég veit að mín virka fyrir mig þegar ég man eftir að nota þau.

Sambíó

UMMÆLI