NTC

Vaðlaheiðagöng – Viðhorf og væntingar

Ósk Helgadóttir skrifar

Nú í júlí eru 33 ár síðan við hjónin fluttum fyrst í Fnjóskadalinn. Það var í árdaga Víkurskarðsins sem þá þótti reyndar mikil samgöngubót. Við vorum ung og bjartsýn og höfnuðum fyrirframgefnum hugmyndum um að við værum að fara í hefðbundinn búskap. Ég man ennþá hvað fólk hér rak upp stór augu þegar fréttin barst og æði oft fengum við spurninguna: „Já en, á hverju ætlið þið þá að lifa?“ Á þeim tíma lifðu nánast allir hér á búskap.

Einhvernvegin hefur okkur það nú tekist , það hefur ekki alltaf verið auðvelt en við fundum okkar farveg. Og í gegnum árin hefur þeim fjölgað töluvert sem búa hér og starfa við annað en landbúnað.

Víkurskarðið farartálmi
En það er þetta blessaða Víkurskarð. Vissulega er gaman að fara þar um á sólríkum sumardegi og útsýnið skemmir ekki í hvora á áttina sem litið er, en þeim sem ekki þekkja til hættir til að gera lítið úr þeim aðstæðum sem skapast þar gjarnan yfir vetrartímann.

Ég mun ekki syrgja vetrarferðirnar yfir Skarðið, enda í mínum reynslubanka um þennan fjallveg minningar sem sitja fastar á sálinni en hughrifin af því að horfa yfir spegilsléttan Eyjafjörðinn. Og það eru neikvæðar minningar.

Það er til dæmis minningin um nýjársdag 2005 þegar maðurinn minn fékk hjartaáfall og Skarðið ófært – ekki sérlega góð minning. Biðin eftir Súlumönnum sem brutust frá Akureyri með lækni og sjúkraflutningamenn var löng og ferðin inn eftir tók í minningunni eilífðartíma. Það fór betur en á horfðist – en mikið hefði nú verið gott að hafa göngin þá.

Það getur skollið á fyrirvaralaust uppi í Hrossagilinu og þeir sem það hafa upplifað þekkja þá tilfinningu að komast hvorki aftur á bak né áfram vegna veðurs og vita ekkert hvort eða hvenær einhver asninn gluðar framan á, aftan á eða jafnvel inn í hliðina á manni. Skyldu menn geta sett sig í spor þeirrar konu sem lendir í þannig aðstæðum ein á ferð – og ólétt? Ég þekki það – og það er verulega vond tilfinning.

Ég gæti haldið áfram og sagt ykkur margar fleiri sögur sem tengjast baráttu fólksins hér austan við, við þennan „krúttlega“ fjallveg. Þær sögur hafa ekki endilega farið hátt eða ratað á forsíður fjölmiðlana, en oft hefur staðið tæpt og litlu mátt muna að illa færi. Það er til dæmis ekki óalgengt að vinnustaður minn, Stórutjarnaskóli breytist í fjöldahjálparstöð í vondum vetrarveðrum og margir hafa verið fegnir að skríða þar í hús þegar færðin spillist út af – og Víkurskarð lokast.

Mikilvæg samgöngubót – öryggisventill
Gerð Vaðlaheiðargangna hefur fengið mjög neikvæða umfjöllun í samfélaginu, það er talað um kjördæmapot og ég held að þar hafi öll stóru orðin verið látin falla. Ég er samt ekki viss um að þeir hinir sömu og gagnrýna framkvæmdina hvað hæst vildu endilega vera í sporum okkar hér.

Ég ætla hins vegar ekkert að dæma það hvort að einhver önnur göng hefðu átt að vera á undan í forgangsröðinni. Ég þekki líka til aðstæðna austur á landi þar sem fjallvegir liggja mun hærra en Víkurskarð. Þekki Fjarðarheiðina og veit að hún sýnir ekki alltaf sparihliðina yfir vetrartímann. Það er hins vegar mín skoðun að ætlum við að viðhalda byggð í landinu þurfi samgöngur að standast þær kröfur sem gerðar eru í dag. Við erum rík þjóð og jarðgangnagerð ætti að vera sjálfsagður þáttur í nútímavegagerð rétt eins og hjá öðrum þjóðum.

Það eru breyttir tímar og þó að þeir sem eru komnir aðeins upp á árin sætti sig við ýmislegt þá gerir unga fólkið það ekki og við ætlum þeim að taka við. Því segi ég það að skilyrði fyrir áframhaldandi búsetu fólks hér sem annarsstaðar eru tryggar samgöngur.

En Vaðlaheiðargöng – ég get sagt ykkur það að orðið bráðnar á tungu minni eins og góður konfektmoli. Mér finnst gott að segja það, það hljómar vel, það vekur mér vonir um aukin lífsgæði og tilfinningin fyrir þessari framkvæmd fyllir mig sem íbúa í þessu sveitarfélagi bjartsýni og öryggi.

Göngin eru mikið hagsmunamál fyrir alla sem búa austan Vaðlaheiðar. Þar get ég fyrst nefnt aðgengi að Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri sem er svæðinu hér austur um gríðarlega mikilvægur öryggisventill. Þegar við mætum sjúkrabílnum í Ljósavatnsskarði er hann ekkert endilega að flytja sjúkling frá Húsavík til Akureyrar, hann getur allt eins verið að koma frá Egilsstöðum eða Norðfirði.

Margir hér austan við stunda nám á Akureyri og keyra daglega á milli. Hér þurfa foreldrar að sjá á eftir börnum sínum í framhaldsskóla inn yfir heiði, flest fara þau þangað, leigja þá ýmist eða búa á heimavist. Það er kostnaðarsamt, fyrir utan það að það er ekki æskilegt að þurfa að sleppa hendinni af börnunum sínum svo ungum. Mér finnst ekki óeðlilegt að ætla að með betri samgöngum skapist meiri líkur á að börnin okkar geti búið lengur í foreldrahúsum og farið daglega á milli. En það verður þá að vera þannig að snjómokstur á sveitavegum verði í takt við almenningssamgöngur um þjóðveg 1.

Aukin tækifæri felast í bættum samgöngum
Ég hef alveg heyrt þær raddir að sérstaða samfélagsins okkar komi til með að breytast vegna bættra samgangna. Ég kaupi alveg þau rök, en hef engar sérstakar áhyggjur af því. Við þróumst bara og það er eðlilegt. Auðvitað er þetta gagnkvæmt, því við komum einnig til með að eiga greiðari leið út úr okkar samfélagi og fáum þá aukin tækifæri til að nýta okkur þann fjölbreytileika sem nágrannar okkar í þéttbýlinu hafa upp á að bjóða og tekið þar þátt.

Það er einhæfni í atvinnulífi, erfiðar samgöngur og fjarlægð frá vinnusóknarsvæðum sem gerir það oftast að verkum að íbúum í hinum dreifðu byggðum landsins fækkar. Þetta á við um okkur, ekki satt?

Ég er sannfærð um að tilkoma Vaðlaheiðargangna eigi eftir að breyta landslaginu meira en okkur grunar. Til dæmis gæti aukið aðgengi að atvinnu komið til með að styrkja hér búskap og ég hugsa að margir vilji drýgja tekjurnar með því að stunda vinnu af bæ. Það styrkir líka samfélagið í heild að hafa greiðari aðgang að fjölbreyttum vinnumarkaði. Göngin annarsvegar og uppbyggingin á Bakka hinsvegar munu vonandi tvinna saman þráð sem tengir byggð í Þingeyjarsýslu allri og það ásamt þeim atvinnugreinum sem fyrir eru stuðla að samfelldu atvinnusvæði frá Eyjafirði og austur um. Það eru nú þegar margir sem sækja vinnu úr Eyjafirði austur og öfugt og eins og við vitum er Víkurskarðið orðið næst fjölfarnasti fjallvegur landsins. Og það sem að menn gleyma gjarnan, Víkurskarðið tengir Austur – og Norðurland og miklir flutningar eru þar um – í báðar áttir.

Með göngunum batnar aðgengi að Akureyrarflugvelli fyrir íbúa austan Vaðlaheiðar og vonandi breytast þá líka forsendur fyrir betri nýtingu og frekari uppbyggingu Aðaldalsflugvallar þannig að það verði tveir öflugir flugvellir á þessu svæði. Til hagsbóta fyrir Þingeyinga – og Eyfirðinga til framtíðar.

Ég er bjartsýn á framtíðina og trúi því að ef/þegar fólk kemur til með að flytja hér austur þegar Vaðlaheiðargöng opna ætti enginn að þurfa að spyrja „Á hverju ætlið þið að lifa?“ því þá munu leiðir liggja til allra átta.

Ósk Helgadóttir
Merki, Fnjóskadal

Sambíó

UMMÆLI