Þjóðlistahátíðin Vaka fer fram dagana 30. maí – 2. júní og alla dagana verður dagskrá í Hofi, námskeið í dansi og söng, hádegishugvekjur og tónleikar öll kvöldin.
Upphafstónleikarnir á miðvikudagskvöldið eru jafnframt vortónleikar Félags harmonikuunnenda við Eyjafjörð og sérstakir gestir á tónleikunum verða Dansfélagið Vefarinn og kvennakórinn Embla. Tónleikunum lýkur með almennum dansi.
Á tónleikunum á fimmtudagskvöldið koma fram Marilyn Tucker, Paul Wilson og Matt Quinn frá Englandi, spilmenn Ríkínís og félagar úr kvæðamannafélaginu Gefjuni. Tónleikunum lýkur á að Marilyn og Paul kenna tónleikagestum enska dansa og stýra svo dansi.
Finnsku tónlistarmennirnir Anna Fält, Eeva-Kaisa Kohonen og Tríó Matti Kallio koma fram á tónleikum föstudagskvöldsins, ásamt dúettinum Funa, sem er að hálfu íslenskur og hálfu enskur, félögum úr kvæðamannafélaginu Rímu og norska danshópnum Strilaringen og harðangursfiðluleikurum. Tónleikunum lýkur með því að Strilaringen og fiðlarar þeirra kenna tónleikagestum norska dansa og leiða svo almennan dans.
Á kveðjutónleikum Vöku á laugardagskvöldið koma flestir listamenn hátíðarinnar fram. Sérstakir gestir kvöldsins eru Danshópurinn Sporð, ásamt harmonikuleikurum, sem sýnir íslenska þjóðdansa og leiðir síðan tónleikagesti í dansi.
Dagskrána alla og nánari upplýsingar má sjá hér.
Hér má svo kaupa hátíðarkort sem veitir aðgang að öllum tónleikunum eða staka miða á tónleika.
UMMÆLI