Vegan lífstíllinn á Akureyri: „Maður lagar sig bara að því sem bærinn býður upp á“Ögmundur Atli Karvelsson

Vegan lífstíllinn á Akureyri: „Maður lagar sig bara að því sem bærinn býður upp á“

Facebook- hópurinn Vegan Akureyri telur um 400 meðlimi. Þar skiptast Akureyringar sem eru vegan á ráðum og ábendingum um mat og fleira sem hentar lífstílnum í bænum. Góð stemning virðist vera í hópnum og á síðasta ári hittist hópurinn til að mynda í vegan grillveislu í Kjarnaskógi.

Akureyringurinn Ögmundur Atli Karvelsson er meðlimur í hópnum en hann hefur verið vegan síðan í janúar 2019.

„Ég sá myndina Food co. árið 2012 og gat ekki borðað kjöt í 2 mánuði eftir það. Vegna aðstæðna hafði ég ekki mikið val og hætti að pæla í þessu. En ég varð svo vegan í veganúar 2019. Þá hafði ég verið grænmetisæta í 2 eða 3 mánuði. Vildi réttlæta fyrir mér það að borða mjólk, ost og egg en eftir að hafa séð til dæmis hvaða efni eru sett út í þessar vörur ákvað ég að stökkva á vegan vagninn.“

Ögmundur segir að eftir að hann hafi setið í umhverfisnefndum á vinnustöðum og séð rök fyrir veganisma í bíómyndum og uppistöndum hafi hann byrjað að spá í veganisma og hugsunin hafi alltaf verið til staðar síðan þá.

Það eru tvö atvik sem gerðu síðan útslagið. Eitt var í vinnunni þegar ég spurði samstarfskonu hvort hún myndi hætta að borða kjöt til þess að bjarga heiminum. Hún svaraði neitandi því það kæmi henni ekkert við, sem gerði mig brjálaðan en þá spurði ég sjálfan mig þessarar spurningu. Hitt atvikið átti stað í Húsdýragarðinum. Við fórum með krakkana okkar að svínunum. Þau voru þar í makindum í sínum litlu básum. Fólk að koma allan daginn, alla daga og annaðslagið koma forvitnir prakkarar og pota í þau. Ég hugsaði að þetta væri glatað en þessi svín höfðu það best af þeim svínum sem eru á Íslandi. Þetta fékk mig til að hugsa aftur til myndarinnar Food co. Ég gat ekki með góðri samvisku borðað kjöt dýranna vegna né umhverfisins. Þess vegna er ég vegan.“

Ögmundur segir að þegar hann ákvað að gerast vegan með mikilli sannfæringu hafi hann aðlagað sig að þeim aðstæðum sem Akureyri býður uppá.

„Ég sé fyrir mér að þeir sem geri þetta umhverfisins vegna „leyfi“ sér frekar eitt og annað. Eina vandamálið er að þurfa útskýra eða rökræða við eldra fólk sem ólst upp í sveitinni og hafði ekki um neitt annað að velja. Ein eldri kona sem ég þekki ólst upp í torfbæ. Hún varð reið við mig þegar ég var að segja að ég borða ekki kjöt.“

Hann segist versla sínar vegan vörur í fimm búðum á Akureyri, Nettó búðunum, Bónus búðunum og í Hagkaup.

Þessar búðir eru auðvitað útum allt land og með svipað vöruúrval á flestum stöðum. Það er oft sem vörur sem við viljum svo sem vegan hakk eða vegan ostur eru ekki til þegar við förum að versla. Sem er einu sinni í viku. Þá veit ég ekki hvort það sé ekki til á landinu eða hvort verslunarstjóri pantar bara annaðslagið þessar vörur. En ég held að allir sem eru vegan á Íslandi kaupi mikið inn í einu þegar þeir sjá vörur sem eru bara til stundum, við hjónin gerum það þar sem við búum á Siglufirði. Varðandi erlendis að þá er það mismunandi eftir löndum, Norðurlöndin eru mjög framarlega og fyrirtæki eins og Oatly og Annama eru með mikið af vörum til sölu. Bretland og Pólland hafa mikið af vegan stöðum (samkvæmt TripAdvisor), ég skoðaði eitthvað um daginn þegar ég var í ferðahug. Aftur á móti hef ég aðstoðað túrista frá Þýskalandi og Frakklandi í Nettó á Akureyri sem höfðu aldrei séð eins mikið vegan úrval.“

Ögmundur segir að hann hafi ekki orðið var við sérstaklega mikinn áhuga á vegan lífstílnum á Akureyri. Hann segir að það sé þá aðallega í hópnum Vegan Akureyri á Facebook eða í formi vöruskorts í búðunum.

„Vegan Akureyri er ágætlega virk grúppa og í fyrra var til að mynda boðað í vegan grill í Kjarnaskógi,“ segir hann.

Úr vegan grilli í Kjarnaskógi síðasta sumar

Hann segir að á Akureyri hafi hann ekki orðið var við neinn veitingastað sem er sker sig úr varðandi vegan úrval en að flestir matsölustaðir séu þó með eitthvað í boði.

„Það eru helst þá staðir sem eru ekki „vegan friendly“ eins og skyndibitalúgurnar og bakaríin. Það var þó að opna nýtt bakarí í Sunnuhlíð sem er með gott vegan úrval og ég er mjög spenntur að smakka.“

Ögmundur býr núna á Siglufirði ásamt fjölskyldu sinni. Hann segir að það séu betri búðir á Akureyri til þess að versla inn en að á Siglufirði séu miklu betri vegan veitingastaðir.

En er Ögmundur með einhver ráð fyrir þau sem vilja gerast vegan?

Þegar ég var 20 ára þá var fæðuvalið hjá mér rosalega takmarkað. Ég setti bara sósu og kartöflur með kjötinu og allt þess á milli voru skyndibita eða samlokur. Ég ákvað að byrja á litlum skrefum og fá mér t.d. rauðkál. Ein vinkona mín sem býr hjá foreldrum sínum samdi við þau um að hafa vegan mánudaga. Það gæti verið fín leið til að byrja. Annars er ótrúlega auðvelt að annaðhvort Googla uppskriftir eða spyrja í grúppunum á Facebook. Þetta er miklu meira basic en flestir gera sér grein fyrir. Ég fer 2-4 sinnum á ári í blóðprufu til að athuga hvort mig skorti einhver vítamín eins og b12 eða D. En ég tek vegan D (fæst í bónus) og set næringager (með b12) í vegan matreiðslu „rjóma“ svo sósan verði meira „rjómakennd“. Mig hefur ennþá ekki skort neitt meira en flestir Íslendingar (eins og læknirinn minn segir alltaf).“

UMMÆLI