Prenthaus

Vel skipulögð þrifasveit heldur öllu tandurhreinu

Vel skipulögð þrifasveit heldur öllu tandurhreinu

Hreinlæti er stór og mikilvægur þáttur í fiskvinnsluhúsum Samherja á Akureyri og Dalvík, enda eru gerðar gríðarlegar kröfur um hreinlæti og gæði á öllum stigum starfseminnar. Þegar vinnslu lýkur í húsunum , taka við öflugar sveitir, sem þrífa og hreinsa húsin samkvæmt ákveðnum verkferlum.

Alþjóðlegar vottanir

Vinnsluhúsin eru samþykkt af stærstu verslunarkeðjum í heimi , sem senda með reglulegu millibili sérfræðinga til að taka út og meta alla þætti framleiðslunnar, þ.á.m. þrifin. Þá eru bæði húsin með alþjóðlegar vottanir sem ná til allra þátta í framleiðslu matvæla og eftirlit innlendra aðila er sömuleiðis margþætt.

Stöðugt og skilvirkt gæðakerfi

Daglegt innra eftirlit er ekki síður mikilvægt, einnig hönnun vinnsluhúsanna og allt skipulag. Fleiri þættir geta skipt sköpum í þessum efnum, svo sem búnaður og staðsetning tækja og tóla. Til að tryggja stöðug og fullnægjandi gæði afurða er gæðakerfið sannprófað reglulega og tekið út af erlendum vottunarstofum.

Vélbúnaður þrifinn

Þéttur og samstilltur hópur

Sveinn Haraldsson er verkstjóri þrifasveitar vinnsluhússins á Dalvík. Hann segir að níu starfsmenn sveitarinnar hefjist handa við þrif strax að lokinni vinnslu í húsinu. Hann segir að vélarnar séu alltaf að þróast til betri vegar, svo sem í tengslum við þrif og alla umgengni.

„Við þrífum samkvæmt ákveðnum verkferlum og hefjumst handa þegar vinnslu er að ljúka, oftast klukkan fjögur á daginn. Hver og einn í sveitinni er með sitt afmarkaða svæði og hlutverk, þannig náum við að skila góðu verki eins og lagt er upp með. Starfið getur vissulega verið nokkuð líkamlega erfitt en á móti kemur að þetta er afskaplega þéttur og samstilltur hópur, sem þekkir vel húsnæðið og allan tækjakost.“

Mælikvarði á ánægju í starfi

Starfsaldur í þrifasveitinni er hár. Sveinn hefur verið í þrifasveitinni í tuttugu ár.

„Langur starfsaldur er örugglega ágætur mælikvarði á ánægju í starfi. Nýja vinnsluhúsið er á margan hátt þægilegt, auk þess sem sjálfvirk þvottakerfi eru á nokkrum stöðum. Hérna er líka mjög vel hugað að öllum öryggisþáttum og öll tæki eru áhættugreind, sem er afar mikilvægt. Gott og náið samstarf við gæðastjóra er sömuleiðis nauðsynlegt í tengslum við þrifin, enda eru reglulega tekin sýni til að sannreyna að allt sé eins og lagt er upp með,“ segir Sveinn Haraldsson.

Nennetta Steingrímsson að störfum

Góður hópur sem skilar góðu verki

Nenetta Steingrímsson hefur starfað hjá Samherja á Dalvík í 32 ár, alltaf í þrifasveitinni.

„Jú, það er rétt, ég er með lengstan starfsaldur í hópnum. Vinnutíminn hentar mér ágætlega, þannig að ég er afskaplega sátt. Við vinnum samkvæmt ákveðnu plani, þar sem hver og einn hefur sitt hlutverk. Þetta er stórt hús og með réttu skipulagi gengur allt vel. Þetta er góður hópur, sem skilar góðu verki,“ segir Nenetta Steingrímsson.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó