„Verksmiðjustúlkan Jana í Höfða“

Í tilefni 100 ára afmælis fullveldis Íslendinga 2018, og 20 ára afmælis Iðnaðarsafnsins á Akureyri, verður sýningin „Verksmiðjustúlkan Jana í Höfða“ opnuð á efri hæð safnsins laugardaginn 10. febrúar kl.14.00.

Jana hét fullu nafni Júlíana Andrésdóttir og var fædd 21. júní 1901. Hún er sögumaður sýningarinnar og samnefnari fyrir það fólk sem „vann á vélunum“ eins og það var kallað. Hún hóf störf í Klæðaverksmiðjunni Gefjuni á Gleráreyrum 1. júní 1917, þá ný orðin 16 ára. Þar vann hún í fjögur ár en fór þá í aðrar vinnur. Hún kom til baka nokkrum árum síðar og vann á Gefjun í samfellt 40 ár.

Sýningin er byggð að hluta til á viðtali sem tekið var við Jönu. Á þessum árum urðu miklar breytingar; tvær heimstyrjaldir geisuðu, verðbólga, vöruskortur og vöruskömtmun. Til að mynda voru verksmiðjurnar alla jafna hitaðar upp með kolum en í fyrri heimsstyrjöldinni hækkuðu þau mjög í verði og var jafnvel erfitt að fá þau. Þá var verksmiðjan hituð með sverði (mó). Hann þurfti að stinga upp, aka með hann heim að Gefjun og hlaða upp í hrauka. Einnig var mikil vinna að koma í veg fyrir að vatnið frysi í leiðslunum. Þegar saman fór frostaveturinn mikli og skortur á kolum var það mikið og kaldsamt verk. En allir hjálpuðust að við að láta þetta ganga.

Júlíana Andrésdóttir lést 1. júní 1994, 92 ára að aldri.


UMMÆLI