Listasafnið gjörningahátíð

Vertu þú en ekki þú

Vertu þú en ekki þú

Ég veit ekki með ykkur en mér finnst samfélagið senda ruglingsleg skilaboð til okkar. Við fáum þessi skilaboð um að við eigum að vera við sjálf, elska okkur eins og við erum með allar okkar fellingar og appelsínuhúð. Við eigum að elta drauma okkar og gera hlutina á okkar hraða. Á sama tíma fáum við hins vegar skilaboð um að fegurð jafngildi grönnum og stæltum líkama. Það er síðan ákveðin formúla í lífinu sem við eigum að fylgja. Klára stúdentspróf. Fara í heimsreisu, víkka sjóndeildarhringinn og sletta aðeins úr klaufunum. Koma síðan heim og setjast aftur á skólabekk. Ná sér í starfsréttindi eða háskólagráðu. Því hærra menntunarstig því meiri virðingu færðu. Á þessum tímapunkti ættiru síðan að vera kominn með maka af gagnstæðu kyni. Þá er bara eftir trúlofun, íbúðarkaup og barneignir. Það fara kannski ekki allir nákvæmlega í gegnum lífið svona en okkur finnst að þetta sé formúlan sem við eigum að fylgja. Við fáum skilaboð um að vera við sjálf en samt eigum við að passa inn í þennan kassa.

Það hugsa kannski einhverjir að ég sé gömul, bitur piparjónka. Það er alls ekki raunin. Ég er hins vegar í jaðarhóp í samfélaginu og mig langar að vekja athygli á því að það er ekki auðvelt. Það er ekki auðvelt að synda á móti straumnum og fara aðrar leiðir en flestir. Það er ekki auðvelt að upplifa að hlutirnir sem ég geri séu minna virði en hjá öðrum. Að ég sé ekki eins árangursrík af því að ég fylgdi ekki formúlunni.

Sem betur fer hafa orðið miklar framfarir í samfélaginu á síðustu árum og áratugum. Ýmis samtök og hreyfingar hafa verið stofnuð. Herferðir hafa verið framkvæmdar. Og rödd minnihlutahópa er farin að heyrast. Til dæmis eru áhrifavaldar á samfélagsmiðlum sem minna okkur á að þó að við myndum öll borða og hreyfa okkur eins, þá værum við enn með ólíka líkama. Samtök fræða okkur um ólíkar kynhneigðir og fleiri dyr hafa opnast en bóklegt háskólanám að stúdentsprófi loknu. Samfélagið er að taka ákveðin skref í átt að fjölbreytileika mannsins og virðingu fyrir því.

Vandamálið er hins vegar ég og þú. Ég og þú erum sek um að viðhalda þessum staðalímyndum. Af því að við gerum ráð fyrir því að fólk ætlar að lifa eftir þessari formúlu sem við höldum að allir sækjast í. Viðhorf og hegðun okkar viðheldur staðalímyndunum. Við spörum ekki hrósin þegar einstaklingur léttist en erum þögul sem gröfin þegar þyngdaraukning er sjáanleg. Við spyrjum nýstúdent hvaða háskólanám eigi að skella sér í. Og ungt par fær ekki frið fyrir spurningum um hvenær sé von á barninu. Við erum að beina fólki í ákveðna átt í staðinn fyrir að leyfa hverjum og einum að finna sína leið. Lífið er alls konar og við erum alls konar. Er ekki tímabært að við leyfum hvort öðru að vera það?

*Be yourself, everyone else is taken*

UMMÆLI