NTC

Viðbygging og endurbætur á  Ráðhúsi Akureyrarbæjar

Viðbygging og endurbætur á Ráðhúsi Akureyrarbæjar

Dómnefnd í hönnunarsamkeppni um viðbyggingu og endurbætur á Ráðhúsi Akureyrar hefur ákveðið að veita Yrki arkitektum 1. verðlaun fyrir tillögu sína og hefur hún því verið valin til frekari hönnunar og útfærslu.

Samkeppnin var hönnunarsamkeppni að undangengnu forvali sem var opið öllum sem uppfylltu skilyrði forvalslýsingar. Alls bárust 14 umsóknir um þátttöku í forvalinu. Forvalsnefnd gaf umsóknum stig í samræmi við forvalsgögnin og var niðurstaðan að fjórum arkitektastofum var boðin þátttaka í boðkeppninni: A2F arkitektum, Studio 4A, Studio Granda og Yrki arkitektum.  

Í niðurstöðu dómnefndar um vinningstillöguna frá Yrki arkitektum segir orðrétt: „Tillagan er í senn bæði nútímaleg, fáguð og ber ytri ásýnd tillögunnar með sér ákveðna festu sem fellur vel að hlutverki hússins sem Ráðhúss Akureyrar. Samspil hins nýja við hið gamla ber með sér virðingu fyrir sögu hússins, en slær um leið skýran og metnaðarfullan tón til framtíðar. Með tilkomu þverbyggingarinnar verður til minni inngarður á lóðinni sem gæti orðið skemmtileg viðbót við bæjarmyndina. Inngarðurinn snýr til suðvesturs og færir hluta af starfsemi ráðhússins nær íbúum bæjarins. Þannig má vel sjá fyrir sér að garðurinn verði vinsæll viðkomustaður á góðviðrisdögum bæði meðal starfsmanna ráðhússins og annarra íbúa.“

Í greinargerð arkitektastofunnar segir meðal annars að eitt meginmarkmið tillögunnar sé að skapa Ráðhúsi Akureyrar þann sess í samfélaginu sem það ætti að hafa. Hönnun lóðarinnar miði að því að endurvekja og styrkja tengsl Oddeyrarinnar við miðbæinn og að skapa aðlaðandi áningarstað – Ráðhúsgarðinn – fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur til og frá miðbænum. Frá Ráðhúsgarðinum er gengið inn í opið og bjart alrými sem teygir sig yfir fjórar hæðir, en viðbyggingin er norðanmegin við alrýmið og núverandi ráðhús.

Bæjarstjórn Akureyrar hefur samþykkt að viðbygging við Ráðhús Akureyrar skuli byggð að undangenginni samkeppni um útlit hússins. Markmiðið með framkvæmdinni er að færa alla miðlæga starfsemi Akureyrarbæjar á einn stað en fram að þessu hefur stjórnsýslan verið til húsa bæði að Geislagötu 9 og Glerárgötu 26. Með því að sameina alla stjórnsýslu sveitarfélagsins undir einu þaki í húsnæði sem er alfarið í eigu Akureyrarbæjar næst fram umtalsvert hagræði og mun lægri rekstrarkostnaður til lengri tíma litið.

Dómnefnd lagði höfuðáherslu á eftirfarandi atriði við mat sitt á úrlausnum keppenda:

  • Að viðfangsefnið sé leyst á heildstæðan hátt með vandaðri og góðri byggingarlist sem styrki ímynd hússins sem Ráðhúss Akureyrar
  • Að nýting rýma sé góð og bjóði upp á sveigjanleika og fjölbreytileika í útfærslu á vinnustöðvum
  • Að viðmót byggingarinnar gagnvart almenningi og lóðarhönnun styrki nánasta umhverfi
  • Að umferðar-, aðgengis- og öryggismál séu vel leyst
  • Að öll byggingarefni uppfylli ítrustu kröfur um góða endingu og lágmarksviðhald
  • Að umhverfissjónarmið, sjálfbærni og vistvæn hönnun séu höfð að leiðarljósi við hönnun
  • Að viðbygging og breyting á eldra húsi sé góð byggingarlist sem falli vel að umhverfi sínu
  • Að tillagan falli vel að heildarkostnaðarviðmiði verkkaupa

Næsta skref er að ráðist verður í frumhönnun út frá vinningstillögunni og í kjölfarið verður verkið kostnaðarmetið. Því næst verður tekin ákvörðun um hvort og þá hvenær framkvæmdir geta hafist.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó