Múlaberg

Viðgerðir á hjúkrunarheimilinu Hlíð hafa áhrif á starfsemi SAk

Viðgerðir á hjúkrunarheimilinu Hlíð hafa áhrif á starfsemi SAk

„Við fögnum því sannarlega að framkvæmdir séu hafnar við hjúkrunarheimilið Hlíð enda hefur lokun rýma þar haft veruleg áhrif á starfsemi SAk,“ segir Ragnheiður Halldórsdóttir framkvæmdastjóri lækninga og öldrunarlæknir við SAk í tilkynningu á vef Sjúkrahússins.

Í maí á þessu ári fór að bera á áhrifum slæms ástands hjúkrunarrýma við hjúkrunarheimilið Hlíð á Akureyri. Íbúar voru að einhverju leyti fluttir frá Hlíð á Lögmannshlíð og ekki var tekið við nýju fólki af SAk. Einnig þurfti Kristnesspítali að takmarka pláss í endurhæfingu í sinni starfsemi og fækka þurfti aðgerðum vegna fráflæðisvanda af SAk.

„Þetta hefur áfram þau áhrif að fleiri bíða á SAk eftir að komast á hjúkrunarheimili. Þetta eru um 14 % sjúklinga á Kristnesspítala og bráðadeildum SAk. Viðmiðið er að þessi tala sé ekki hærri en 5%,“ segir Ragnheiður.

Aukinn kostnaður fyrir SAk

Sameiginlegir fundir hafa verið haldnir með HSN, stjórnendum Heilsuverndar og ráðuneytinu til að takast á við áskorunina sem mun samt sem áður hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir SAk. „Hjúkrunarrými eru mun ódýrari í rekstri en rými á sjúkrahúsi, það er kostnaður sem SAk þarf að bera,“ segir Ragnheiður.

Ekki er gert ráð fyrir auka fjárveitingu til SAk vegna þessa.

UMMÆLI

Sambíó