Vilja byggja samfélagsgróðurhús á HúsavíkOttó Elíasson, rannsókna- og þróunarstjóri hjá Eimi og Sesselja Barðdal Reynisdóttir, framkvæmdastjóri.

Vilja byggja samfélagsgróðurhús á Húsavík

EIMUR, þróunar- og nýsköpunardeild á Norðurlandi ásamt Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) og Hraðinu Húsavík standa fyrir opnum íbúafundi á Fosshótel Húsavík þann 5. September næstkomandi.

Efni fundarins er möguleg uppbygging á samfélagsgróðurhúsi við Ásgarðsveg á Húsavík. Hugmyndin er hluti af Evrópuverkefninu Crowdthermal sem Eimur tekur þátt en markmið verkefnisins felst m.a. í því að efla tækifæri Evrópubúa til að taka beinan þátt í þróun verkefna sem tengjast nýtingu á jarðvarma.

„Árið 2017 kom 17,5% af heildarorkunotkun í Evrópu frá endurnýjanlegum orkugjöfum og einungis 3% frá jarðvarma. Jarðvarmi er lítið nýtt auðlind í Evrópu þó að möguleikarnir séu miklir, til dæmis til húshitunar líkt og á Íslandi,“ segir Ottó Elíasson, rannsóknar- og þróunarstjóri Eims.

Hlutverk Eims í Crowdthermal verkefninu hefur verið að móta verkefnið og áætlanir tengdar slíkri uppbyggingu. Á fundinum verða þessar hugmyndir kynntar og farið verður yfir samfélagslegan ávinning sem skapast í leiðinni fyrir svæðið.

„Samfélagsgróðurhús á Húsavík er í mínum huga miklu meira en ein bygging. Samfélagið í kringum þetta er það sem mér finnst spennandi,“ segir Sesselja Barðdal Reynisdóttir framkvæmdastjóri Eims.

„Þarna gætu orðið til nýjar hugmyndir, ný samtöl um hvernig við getum gert heiminn betri. Ungir og gamlir gætu skipts á skoðunum sínum og deilt sinni þekkingu og draumum. Ekki skemmir fyrir að eiga samtalið inn í suðrænu og björtu rými á köldum og hvítum vetrar dögum.“

„Gróðurhúsinu er ætlað að vera sýnidæmi um það hvernig má nýta betur heita vatnið okkar og um leið efla svæðið, nýsköpun og atvinnutækifæri. Við hvetjum því alla sem hafa áhuga á ræktun lands og lýðs til þess að koma og taka þátt á fundinum,“ segir Ottó.

Fundurinn fer fram í fundarsal Fosshótels mánudaginn 5. september kl 16:30 – 18:00 og er opinn öllum.

Slóð á FB viðburð: https://fb.me/e/1OO9VX8Vs

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó