Vísindaskólinn með freistandi þemu

Vísindaskólinn með freistandi þemu

Búið er að opna fyrir skráningu í Vísindaskóla unga fólksins sem haldinn verður í sjötta skipti í júní. Fyrstu viðbrögð hafa verið mjög góð en alls getur skólinn tekið á móti 75 nemendum. Að venju verða öll þemun í ár ný og áhugaverð. Meðal þess sem verður í boði er fræðsla um jarðfræði og eldgos sem tengist eldsumbrotunum á Reykjanesi og kennsla á vegum Alþingis um lýðræði og störf þingsins, enda kosningar í haust.

Skólinn hóf starfsemi sína árið 2015 og er hann ætlaður börnum á aldrinum 11-13 ára. Reynslan hefur sýnt að bæði strákar og stelpur sýna þessum sumarskóla mikinn áhuga og hafa kynjahlutföll í þátttakendahópnum verið mjög jöfn. Skólinn verður starfandi dagana 21.-25. júní og hægt er að nota tómstundastyrkinn til þess að greiða þátttökugjald.

Umsjónarmenn þessa verkefnis leggja áherslu á að bjóða upp á áhugavert og fjölbreytt efni og að kennslan sé lifandi og skemmtileg. Skólastarfið fer að venju fram í húsnæði Háskólans á Akureyri.

Foreldrar og aðstandendur barna geta skráð þátttöku þeirra á vef skólans www.visindaskoli.is

Yfirskrift á þemunum fimm er eftirfarandi:

  • Af hverju kom gos á Reykjanesi?
  • Lengi lifi Ísland
  • Björgunarsveitarstörf, býflugur og blómin
  • Sem betur fer erum við ekki öll eins
  • Er orkan endalaus?

Nánari upplýsingar veitir Dana Rán Jónsdóttir, dana@unak.is


UMMÆLI

Sambíó