Voiceland – nýtt samtímatónverk

Gísli Jóhann Grétarsson

Gísli Jóhann Grétarsson

Í síðustu viku hófu þýski leikstjórinn og sviðshönnuðurinn Mareike Dobewall og íslenska tónskáldið Gísli Jóhann Grétarsson að gera tilraunir með kórverk fyrir rými. Þau vinna verkefnið í samvinnu við kammerkórinn Hymnodiu frá Akureyri.
Ýmis rými voru prófuð og fyrir valinu urðu að lokum Akureyrarkirkja og gamla síldarverksmiðjan á Hjalteyri.

Þessar tilraunir eru samvinnuverkefni sem í fyllingu tímans mun gefa af sér nýtt samtímatónverk, sem Gísli og Mareike kalla „lifandi kór innsetningu” og gengur undir nafninu „Voiceland”.
Mareike Doberwall segist hafa notið þess að vinna skapandi vinnu með svona hæfileikaríkum og fjölhæfum kór og bætir við að hún hafi verið sérstaklega hrifin af því hve hópurinn var opinn fyrir að gera tilraunir með nýjar aðferðir og form.

Gísli Jóhann Grétarsson er fæddur og uppalinn á Akureyri en býr í Noregi.  Hann segir að fyrir sér hafi þessir dagar með Hymnodiu verið einstök upplifun. Það sé erfitt að finna hóp af fólki sem geti bæði flutt tónlist af jafn mikilli innlifun og fágun, eins og Hymnodia gerir, en sé einnig tilbúinn að prófa eitthvað nýtt og fara á köflum langt út fyrir það sem venjulegt geti talist.

Mareike Dobewall

Mareike Dobewall

Í október munu Mareike og Gísli halda áfram að vinna með efnið sem safnað var á þessum tíma. Þau hafa fengið aðstöðu til að vinna úr efninu í tvær vikur hjá listamiðstöðinni Bek (Bergen Center for Electronic Arts) í Bergen í Noregi.  Fyrirhugað er að frumflytja verkið „Voiceland” vorið 2017.  Gísli segir Akureyri án efa vera einn af þeim stöðum þar sem verkið verður flutt.

Sambíó

UMMÆLI