Yfir 150 ára sjúkrasögu Norðlendinga safnað saman til varðveislu á Þjóðskjalasafni

Yfir 150 ára sjúkrasögu Norðlendinga safnað saman til varðveislu á Þjóðskjalasafni

150 ára sjúkrasaga Norðlendinga var á dögunum send í heilu lagi á 22 vörubrettum til Þjóðskjalasafns Íslands til varanlegrar geymslu. Þetta kemur fram á vef HSN.

„Var gögnum safnað saman frá öllum eldri starfsstöðvum HSN sem spanna allt frá Blönduósi að Þórshöfn. Um umtalsvert magn af gögnum er að ræða, en skjalasafnið sem nær aftur til 1860 telur rúmlega 2200 skjalaöskjur og vegur 5 tonn. Skjölin skiptast í annars vegar sjúkraskrá látinna og hins vegar stjórnendagögn frá öllum starfsstöðvum HSN til 2014 þegar sameining varð. Því er um er að ræða merka sögu á þróun í heilbrigðisþjónustu í þessu víðfeðma umdæmi sem spannar um 22-23% af Íslandi.

Elstu sjúkraskrárnar eru í skrautskrifuðum fundargerðarbókum sem eru í mjög góðu ásigkomulagmiðað við aldur, en slíkar bækur voru mikið notaðar í skráningum á t.d. slysum, bólusetningum, niðurstöðum á rannsóknum og aðgerðum. Þá voru sumar bækurnar nefndar berklabækur, holdsveikrabækur og fæðinga- og barnabækur til frekari auðkenningar. Elstu stjórnendagögnin eru frá 1914 en þau sýna glöggt þróun á stjórnun og skipulagi á heilbrigðisþjónustu í héruðum umdæmisins.

Tveir starfsmenn voru í fullu starfi í u.þ.b. 2 ár við að safna, flokka og merkja hvert einasta skjal og færa í þar til gerð skjalabox sem síðan fara samkvæmt lögum til varanlegrar varðveislu á Þjóðskjalasafni Íslands. Að auki er einn starfsmaður við flokkun á nýrri gögnum. Þá komu vottunaraðilar frá Þjóðskjalasafninu til að staðfesta frágang gagnanna fyrir flutning. Aðgangur að þessum gögnum er lögum samkvæmt afar takmarkaður, en geymsla þeirra en mikilvæg í réttarfarslegum tilgangi og fyrir vitneskju um heilsufarssögu Norðlendinga. Til framtíðar litið geta gögnin t.a.m. nýst vegna rannsókna,“ segir í tilkynningu HSN.


UMMÆLI

Sambíó