Prenthaus

Yfirlýsing frá Samherja: „Við munum ekki sitja undir röngum og villandi ásökunum“

Yfirlýsing frá Samherja: „Við munum ekki sitja undir röngum og villandi ásökunum“

Forsvarsmenn Samherja hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna fyrirhugaðar umfjöllunar RÚV um ásakanir Jóhannesar Stefánssonar, fyrrum stjórnanda Samherja í Namibíu, á hendur núverandi og fyrrverandi stjórnendum Samherja.

„Við tökum þessu mjög alvarlega og höfum ráðið alþjóðlegu lögmannsstofuna Wikborg Rein í Noregi til að framkvæma ítarlega rannsókn á starfseminni í Afríku. Þar til niðurstöður þeirrar rannsóknar liggja fyrir munum við ekki tjá okkur um einstakar ásakanir,“ segir í yfirlýsingu Samherja.

Í tilkynningunni segir einnig að óskað hafi verið eftir því að fá að setjast niður með Ríkisútvarpinu og fara yfir upplýsingar sem Samherji telur skipta máli í tengslum við fyrirhugaða umfjöllun.

„Þeirri beiðni hefur jafnharðan verið hafnað og hefur Ríkisútvarpið aðeins talið sér fært að ræða við okkur fyrir framan myndavélar. Teljum við þær upplýsingar sem við búum yfir vera með þeim hætti að slíkt væri tillitslaust vegna hagsmuna þeirra einstaklinga sem málið varðar.“

„Öll starfsemi Samherja og tengdra félaga var undir ítarlegri rannsókn árum saman án þess að nokkuð athugavert hafi fundist. Var allt okkar bókhald, tölvupóstar og öll önnur gögn skoðuð ítarlega, þar með talið þeirra félaga sem sinntu útgerð við strendur Afríku frá árinu 2007. Við munum ekki nú, frekar en þá, sitja undir röngum og villandi ásökunum frá fyrrverandi starfsmanni sem enn á ný eru matreiddar af sömu aðilum og fjölmiðlum og í Seðlabankamálinu,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja. Yfirlýsingu Samherja má sjá í heild sinni með því að smella hér.

Fjallað verður um málið í Kveik á RÚV í kvöld. Þátturinn verður tvöfalt lengri en vanalega í kvöld og segir í auglýsingu fyrir þáttinn að hulunni verði svipt af vafasömum starfsháttum íslensks stórfyrirtækis.

Sambíó

UMMÆLI