Á vef Akureyrarbæjar má nú nálgast ýmsar upplýsingar um þjónustu og starfsemi bæjarins nú þegar samkomubann ríkir á Íslandi vegna kórónuveirunnar.
Sjá einnig: Skólastarf á Akureyri næstu vikurnar
Frá og með deginum í dag, 18. mars, verður afgreiðslutími í Ráðhúsinu, Geislagötu 9, og Glerárgötu 26 styttur. Framvegis verður opið frá klukkan 9 til 15 og sama gildir um símsvörun í þjónustuveri. Þessi breyting er gerð til að létta álagi af starfsfólki og draga úr smithættu. Ráðstöfunin hefur þó átt sér nokkurn aðdraganda og er sögð vera ekki tímabundin.
Þá eru íbúar hvattir til að koma sínum erindum á framfæri í gegnum tölvupóst, net eða síma eins og kostur er.
Upplýsingar um aðrar stofnanir bæjarins má sjá hér að neðan teknar af vef Akureyrarbæjar.
Hlíðarfjall
Unnið er að aðgerðaáætlun fyrir skíðasvæðið í Hlíðarfjalli vegna Covid-19. Ekki verður opnað í lyfturnar fyrr en slík áætlun er tilbúin og búið er að útfæra þjónustuna sem tekur mið af viðmiðum og takmörkunum sem yfirvöld hafa sett.
Gönguskíðasvæðið í Hlíðarfjalli verður opið meðan veður leyfir.
Sundlaugar
Sundlaugar á Akureyri verða áfram opnar í samkomubanni, en farið er að tilmælum stjórnvalda um fjöldatakmarkanir og er ekki heimilt að hleypa fleirum en 100 í sund í einu. Gerðar hafa verið ráðstafanir í klefum, skápum í notkun fækkað vegna fjarlægðarreglna, og aukin áhersla lögð á þrif og sóttvarnir.
Þeir sem hafa tök á eru hvattir til að skella sér í sund, en gestir eru beðnir um að virða tveggja metra fjarlægðarmörk.
Íþróttahús bæjarins eru lokuð í þessari viku.
Punkturinn
Punktinum var lokað í dag um óákveðinn tíma. Tómstundastarf barna heldur áfram að óbreyttu, en staðan er metin frá degi til dags.
Grunnþjónusta hjá búsetusviði
Hjá búsetusviði, sem veitir eldri borgurum, fötluðu fólki og veiku fólki þjónustu, er búið að skilgreina ákveðna grunnþjónustu sem er sinnt undir öllum kringumstæðum, fólk fái að borða, nauðsynleg lyf, aðstoð við að komast á fætur, klæðast og sinna hreinlæti.
Skerðing á annarri þjónustu er óhjákvæmileg sökum þess að margir af skjólstæðingum búsetusviðs eru veikir fyrir, en einnig þarf að vernda starfsfólk til að það geti áfram sinnt nauðsynlegri þjónustu.
Takmarka þarf aðgang að heimilum og draga úr félagslegri þátttöku tímabundið. Á þetta til dæmis við um félagslega liðveislu, ákveðnar tegundir heimaþjónustu, frístundaþjónustu fyrir fötluð börn og Lautina. Haft er samráð við þjónustuþega og aðstandendur um breytingar og lögð mikil áhersla á að upplýsa hlutaðeigandi um öll skref.
Bjartsýni og lausnir í skólunum
Allir skólar Akureyrarbæjar lögðu í gær á ráðin með sínu fólki hvernig standa á að framkvæmd skólastarfs næstu daga. Það sem einkennir ástandið núna er bjartsýni og lausnir og allir eru tilbúnir fyrir skólastarf næstu daga.
Líkt og fram hefur komið verður tveimur deildum á Hólmasól lokað í tvær vikur vegna smits foreldris. Börn og starfsfólk á þeim deildum verða í sóttkví þann tíma. Áréttað skal að þetta er einungis varúðarráðstöfun en öll börn og starfsfólk leikskólans eru eftir því sem næst verður komist einkennalaus.
Hér er hægt að lesa meira um skólahald, félagsmiðstöðvar og Ungmennahúsið í Rósenborg.
Heimavinna og fjarfundir
Almennt hefur starfsemi á skrifstofum bæjarins verið skipulögð þannig að ekki komi til ónauðsynlegrar hópamyndunar meðal starfsfólks. Þannig hefur mörgum verið gert kleift að vinna heima, eða þá að fólk skiptist á að koma á vinnustað, reynt er að afgreiða sem flest erindi í gegnum síma eða tölvu, fundum fækkað eins og kostur er eða notaður fjarfundabúnaður.
Upplýsingamiðlun í forgangi
Akureyrarbær leggur mikla áherslu á að upplýsa íbúa eins vel og kostur er um áhrif Covid-19, samkomubanns og takmarkana yfirvalda, á þjónustu og starfsemi sveitarfélagsins. Reglulega eru birtar fréttir hér á heimasíðunni um stöðu mála og þá eru samfélagsmiðlar einnig notaðir til að koma upplýsingum til sem flestra.
Sjá einnig:
– Um skólahald á Akureyri
– Covid-19 og starfsemi Akureyrabæjar
– Varúðarráðstafanir vegna Covid-19
Rétt er að minna á hlutverk okkar allra við að hefta útbreiðslu veirunnar, gæta að hreinlæti, virða fjarlægðarmörk, styðja hvert annað og passa upp á þá sem eru viðkvæmir fyrir. Allar aðgerðir miða að því að vernda þann hóp og koma í veg fyrir rof á nauðsynlegri þjónustu.
Á vefsíðunni Covid.is eru ýmsar upplýsingar og ráðleggingar sem allir eru hvattir til að kynna sér.
Bæjarstjórn fundar í dag og á dagskránni er meðal annars umræða um viðbrögð Akureyrarbæjar vegna Covid-19 faraldursins. Sjónvarpað er frá fundinum á morgun, miðvikudag, á sjónvarpsstöðinni N4 og verður einnig hægt að horfa á upptöku hér á heimasíðunni.
UMMÆLI