Ekki eitt heldur allt!

Jóna Sigurlaug Friðriksdóttir skrifar:

Fyrir nokkrum árum vann yngri dóttir mín í pylsuvagni á Akureyri. Þetta var fyrsta vinnan hennar og hún stolt af að vera komin með alvöru launað starf. Hún hafði gaman af því að afgreiða og vera þannig í beinum samskiptum við skemmtilegt fólk. En fljótlega komst hún að því, eins og annað afgreiðslufólk, að ekki eru allir kurteisir og almennilegir. Hún lét það þó ekki á sig fá fyrr en dag einn að hún lenti í virkilega reiðum viðskiptavini. Þetta var erfið lífsreynsla og hún gat ekki beðið eftir að komast heim.

Þegar vinnudegi var að ljúka klemmdi hún hendi á stól sem hún var að ganga frá. Þegar daman svo ætlaði að stíga á hjólið sitt að vinnudegi loknum uppgötvaði hún að annað dekkið var loftlaust. Þá var ekki annað í stöðunni en að rölta heim og leiða hjólið með sér. Þegar hún hafði gengið stuttan spöl fór að rigna. Dóttir mín hélt að alheimurinn hefði snúist gegn henni, en hugsaði jafnframt: „Hvað gæti hugsanlega fleira farið úrskeiðis?“ Jú, það var ekki allt búið enn, því nokkrum skrefum síðar heyrði hún undarlegt hljóð að ofan og áttaði sig fljótt á að fugl hafði skitið í hárið á henni! Já, sumir dagar eru einfaldlega verri en aðrir. En sem betur fer voru þessar uppákomur ekki verri en svo að ekki væri hægt að bæta þær upp með sturtu, plástri, þurrum fötum og góðri máltíð.
Um kvöldið ákvað hún að „heima væri best“ og ákvað að fara ekki út úr húsi fyrr en nýr og betri dagur væri runnin upp. Nýr og betri vinnudagur.

Pistillinn birtist fyrst í Vikudegi.

UMMÆLI

Sambíó