Við eigum tveggja ára afmæli í dag!

Við eigum tveggja ára afmæli í dag!

Tvö ár. Í dag eru tvö heil ár síðan Kaffid.is fór í loftið, 19. September 2016.
Það eru 730 dagar af fréttum frá Akureyri og nágrenni. Og á þeim tíma hefur Kaffið birt alls 4.448 fréttir. Eða í kringum 43 fréttir í hverri einustu viku!

Alltaf er það jafn hressandi að byrja pistla á léttri tölfræði enda allir pistlar án tölfræði frekar glataðir.
Kaffið hefur farið langa leið frá því að vera fjarlæg hugmynd um skemmtilegan, fjölbreyttan og nauðsynlega fréttamiðil á Akureyri. Hugmyndin kviknaði þegar tilvonandi stofnendur Kaffisins stunduðu nám í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri þegar okkur varð ljóst að það væri klárlega markaður fyrir nýjan, ferskan vefmiðil í höfuðborg norðursins. Það er algengur misskilningur að Kaffið tengist fjölmiðlafræðinámi okkar í Háskólanum á Akureyri en það er ekki svo. Hugmyndin kviknaði utan veggja skólans og lifir þar áfram.

Það er eiginlega ótrúlegt að hugsa til þessa dags fyrir tveimur árum. Þegar við kepptumst við að deila síðunni meðal vina og vekja athygli á Kaffinu, sem við vonuðum og vissum að væri komið til að vera. Fyrsta vísbending þess var þegar síðan hrundi rétt eftir hún fór í loftið vegna heimsóknafjölda og síðan þá hefur vefurinn verið stækkaður margoft til að anna aukinni umferð. Tæpum mánuði eftir að síðan fór í loftið þetta sama ár var Kaffið.is orðinn mest lesni vefmiðill á Norðurlandi. Og þeim titli hefur það haldið síðan!

Á þessum tveimur árum hefur Kaffið stofnað fyrirtæki, haldið úti skrifstofuhúsnæði, flutt fyrirlestra í framhaldsskólum, farið í útvarps- og sjónvarpsviðtöl vegna miðilsins, fengið ótal fyrirspurnir frá bæjarbúum og nærsveitungum, lof og last úr ótrúlegustu áttum og svo lengi mætti telja. Um fram allt hafa viðtökurnar verið ótrúlegar og við erum í rauninni enn þá jafn hátt upp í skýjunum yfir móttökunum ykkar kæru lesendur, líkt og fyrir tveimur árum síðan.
Við ætlum að halda ótrauð áfram í að flytja fréttir, semja skemmtiefni sérsniðið að Akureyringum, upplýsa um mál líðandi stundar og festa Kaffið.is í minni Akureyringa um ókomna tíð sem einn af framsæknu fjölmiðlum Akureyrar.

Stofnendur Kaffisins eru Arnar Geir Halldórsson, Eva Björk Benediktsdóttir, Ingibjörg Bergmann Bragadóttir, Ingólfur Stefánsson, Jónatan Friðriksson og Óðinn Svan Óðinsson sem öll störfuðu sem eigendur og ritstjórar miðilsins. Í dag eru Ingibjörg, Ingólfur og Jónatan eigendur Kaffisins en þau Eva Björk, Arnar Geir og Óðinn Svan eru öll starfandi hjá stærstu fjölmiðlum landsins, DV, Rúv og Vísi.

Hér að neðan má sjá viðtal sem tekið var við Ingólf Stefánsson og Ingibjörgu Bergmann á N4 daginn eftir opnun Kaffisins. Þá var Kaffið lítið en metnaðarfullt verkefni sem við þráðum að geta starfað við seinna meir. Mikið er gaman að sjá drauma verða að veruleika.

 

UMMÆLI

Sambíó