Af kvenrembum og öfgum

Dagný Guðmundsdóttir, formaður FemMA.

Femínismi snýst ekki um að upphefja konur yfir karlmenn. Femínismi snýst um jöfn tækifæri allra, burt séð frá kyni. Þeir sem kalla sig femínista og halda uppi þeim hugmyndum að konur eigi skilið meira og betra en karlmenn eru ekki femínistar. Ekki eru þeir öfgafemínistar heldur, enda er ekki hægt að fara í öfgar þegar kemur að jafnrétti því þá er komið ójafnrétti. Hægt væri að kalla þá einstaklinga kvenrembur sem dæmi eða einfaldlega einhvern sem ekki er femínisti.

Mikið hefur verið í umræðunni upp á síðkastið hvað femínismi sé og hverjir yfir höfuð geti skilgreint sig sem femínista. Þegar um er að ræða vítt hugtak og fjölda mismunandi fólks sem skilgreinir sig sem svo geta upplýsingar og skoðanir verið margar og misvísandi.

Femínismi er trúin á félagslegt, efnahagslegt og pólítískt jafnrétti kynjanna“ (Britannica, 2018). Femínismi fellur því undir jafnrétti. Undanfarna áratugi hefur náðst mikill árangur þegar kemur að jafnrétti kynjanna, þá sérstaklega efnahagslegt og pólítískt jafnrétti og stendur Ísland með þeim allra fremstu í þeim málum. Heyrst hafa þá vangaveltur um hvort eitthvað sé eftir til að berjast fyrir. Ekki ætti mörgum að finnast erfitt að svara þeim vangaveltum. Já, það er ennþá eitthvað að berjast fyrir. Þrátt fyrir að kynin standi að einhverju leiti jöfn á efnahagslegum og pólítískum grundvelli vantar ennþá meira upp á hið félagslega. Í dag er barist fyrir því að breyta rótgrónum staðalímyndum kynjanna sem eru svo djúpt grafnar í samfélaginu að ekki allir taka eftir þeim, né skaðanum sem þær valda. Sem dæmi má nefna þá hugmynd sem ríkjandi er enn um að karlmenn eigi að vera harðir af sér. Nýlegar rannsóknir hafa sýnt fram á að ein algengasta dánarorsök ungra karlmanna á Íslandi er sjálfsvíg (Rauði Krossinn, 2015). Ef það væri meira samfélagslega samþykkt fyrir karlmenn að sýna tilfinningar og þannig leita sér hjálpar við andlegum vandamálum, má velta fyrir hvort hægt væri að lækka tíðnina. Þetta dæmi ásamt ótal fleirum eru ástæður þess að femínistar halda áfram að berjast fyrir jafnrétti kynjanna. Með því að taka á félagslegu misrétti í samfélaginu er unnið áfram að því að ná góðu jafnvægi kynjanna, sem enn hefur ekki alveg náðst, á pólítískum og efnahagslegum grundvelli.

Öfgafemínismi er orð sem ætti að útrýma úr orðaforða okkar. Það gefur til kynna að hægt sé að ganga í öfgar með jafnrétti. Við viljum jafnrétti kynjanna, að enginn fái fleiri eða betri tækifæri en aðrir vegna kyn síns. Þeir sem boða annað ættu að kalla sig annað, ekki tengja sig við baráttu hinna. Það að segja að ekki sé þörf á femínisma er ekki rétt, ekki þarf að líta langt til að átta sig á því. Þörfin hins vegar breytist eftir því sem við komumst lengra í baráttunni, sem verður vonandi að lokum náð með jafnrétti kynjanna.

-Stjórn Femínistafélagsins í Menntaskólanum á Akureyri

Sjá einnig:

Feminismi – skemmt hugtak?

Sambíó

UMMÆLI