Feminismi – skemmt hugtak?

Embla Sól Garðarsdóttir skrifar:

Seinustu aldir hefur orðið feministi vaxið og dafnað. Er nú svo komið að jafnrétti kynjanna er eitt stærsta málefnið í heiminum í dag, ekki síst með herferðinni #metoo. Við kvenmenn höfum ekki fengið sömu hlutverk og karlar hafa fengið einfaldlega vegna þess að við erum konur. Eitt kyn er einfaldlega ekki betra en annað kyn, ekkert eitt kyn er hærra sett enda snýst þessi barátta um það að við verðum öll jöfn. Fjöldi fólks telur sig vera feministar, bæði karlar, konur og aðrir, enda ættu allir að styðja málefnið. Árið er 2018 og baráttan heldur áfram. Karlar eru enn að fá hærri laun en konur og enn eru störf sem konur fá ekki vegna kynferðis þeirra. Mun þetta einhvern tímann taka enda?

Á minni fyrstu árshátíð hér í Menntaskólanum á Akureyri fengum við ræðu frá heiðursgesti um jafnrétti. Ég og bekkjarfélagar mínir sátum öll stjörf á meðan ræðunni stóð. Heiðursgesturinn talaði um hvernig kynjamunurinn var þegar hún var við nám í skólanum. Hún hélt síðan áfram að segja hvernig hún var ekki nógu sátt með að það væru einungis þrjár stelpur í stjórn. Hún vildi að það væru eingöngu stelpur sem stjórnuðu skólanum því að stelpur væru miklu betri en strákar. Það var þá sem ég tók þá ákvörðun um að skilgreina mig ekki sem feminista heldur jafnréttissinna.

Feministi á við um einstakling sem vill jöfn réttindi fyrir öll kynin. Því miður hef ég tekið eftir að sumar konur eru farnar að misnota orðið og eru farnar að kalla sig feminista en eru í raun að segja að konur séu betri en karlar. Þá teljast þær vera öfgafeministar og að mínu mati að senda þannig röng skilaboð. Mikilvægt er fyrir okkur hina eldri og vitrari að kenna og sýna þeim yngri að öfgar eru aldrei góðar, hvorki í þessa átt né hina. Framtíð þeirra hefur jú áhrif á samfélagið.

Embla Sól Garðarsdóttir er nemandi á 1. ári í Menntaskólanum á Akureyri.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó