Arnór Atla bjartsýnn á að ná HM

Iceland v Denmark Eight Finals - 24th Men's Handball World Championship

Arnór bjartsýnn á að ná sér góðum fyrir HM.

Handknattleiksmaðurinn Arnór Atlason er vongóður um að hann nái að jafna sig af meiðslum í tæka tíð fyrir HM í Frakklandi sem fram fer í næsta mánuði. Þetta kemur fram á vef Ríkisútvarpsins.

Arnór hefur verið að glíma við meiðsli undanfarnar vikur og í byrjun desember leit út fyrir að hann myndi ekki ná að jafna sig fyrir HM. Fyrsti leikur Íslands verður þann 12.janúar næstkomandi og segir Arnór í viðtali við RÚV að hann sé bjartsýnn á að verða klár í slaginn.

„Þetta hefur verið upp á við. Ég er búinn að vera á bekknum í síðustu tveimur leikjum og hef verið til taks. Ég vonast til að vera tilbúinn en það verður að koma betur í ljós á næstu dögum. Það er eitt ná leik í dönsku deildinni og svo annað að halda út heilt Heimsmeistaramót. Þetta verður að koma í ljós en ég er bjartsýnn,“ segir Arnór í viðtali við RÚV.

Arnór hefur verið einn af burðarásum íslenska landsliðsins á undanförnum árum en þessi 32 ára gamli KA-maður á alls 184 A-landsleiki að baki og hefur skorað 420 mörk.

Íslenski landsliðshópurinn kom saman í gær og hóf æfingar en alls eru fimm Akureyringar í 28 manna æfingahópi sem verður svo skorinn niður á næstu dögum.

Sjá einnig

Arnór Atlason í nærmynd – Ólíklegt að maður endi í Þórsbúningnum

 

Sambíó

UMMÆLI