Birkir Bjarna kynntur til leiks hjá Aston Villa í dag?

Birkir Bjarnason að kveðja Basel?

Íslenski knattspyrnumaðurinn Birkir Bjarnason er að ganga til liðs við enska B-deildarliðið Aston Villa. Ef að líkum lætur mun Birkir standast læknisskoðun hjá félaginu í dag og ganga frá öllum pappírum í kjölfarið.

Birkir hefur leikið með svissneska stórliðinu Basel undanfarið eitt og hálft ár og varð hann svissneskur meistari með liðinu á síðustu leiktíð. Hann var í lykilhlutverki hjá Basel í Meistaradeildinni fyrir áramót en liðið lauk keppni í fjórða sæti riðlakeppninnar á eftir Arsenal, PSG og Ludogorets.

Birkir átti einnig afar gott ár með íslenska landsliðinu en hann var í algjöru lykilhlutverki með liðinu á EM í Frakklandi. Í lok árs var Birkir í 139.sæti yfir bestu knattspyrnumenn heims.

Sjá einnig: Tveir Akureyringar meðal 200 bestu knattspyrnumanna heims

Fari svo að allt gangi að óskum hjá Birki í dag verður England fimmta landið sem Birkir starfar í sem knattspyrnumaður en hann hefur leikið í Noregi, Belgíu, Ítalíu og Sviss.

Aston Villa er stórt félag í Englandi en liðið féll úr ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð. Aston Villa hefur sjö sinnum orðið enskur meistari, síðast árið 1981. Þá er félagið eitt af fimm enskum liðum sem unnið hefur Evrópukeppni en það gerðist árið 1982. Að auki hefur liðið sjö sinnum unnið ensku bikarkeppnina og fimm sinnum enska deildabikarinn. Knattspyrnustjóri liðsins í dag er Man Utd goðsögnin Steve Bruce.

Sjá einnig

Birkir Bjarnason í nærmynd – Man Utd í uppáhaldi

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó