Egill og Eik gefa út plötu saman: „Sex ár í vinnslu og sex daga að taka upp“

Egill og Eik gefa út plötu saman: „Sex ár í vinnslu og sex daga að taka upp“

Tónlistarfólkið Egill Andrason og Eik Haraldsdóttir gefa út sína fyrstu plötu saman í júlí eftir sex ára vinnslu. Þau sendu frá sér lagið Kertavax í vikunni sem er annað lagið sem kemur út af plötunni. Hlustaðu á lagið neðst í greininni.

Egill og Eik hafa komið fram saman síðan þau voru um 12 til 13 ára. Þau kynntust við uppsetningu Leikfélags Akureyrar á Gullna Hliðinu leikárið 2013/2014.

„Við fundum strax fyrir sterkri tónlistatengingu á milli okkar sem hefur aðeins orðið sterkari með tímanum. Við hófum í raun gerð plötunnar um leið en hún fór virkilega af stað sumarið 2015, þegar við unnum saman á Húna II. Þá eyddum við þónokkrum tíma í bátnum að semja allskonar lög. Lögin voru rosalega dramatísk og fjölluðu um allskonar hluti sem við, nýskriðin á tvítugsaldurinn, þekktum alls ekki neitt. Eins og; ást, svik, framhjáhald og fleiri gríðarstórar tilfinningar. Þaðan kemur nafn plötunnar; Lygasögur, því mörg lögin eru hreinlega bara uppspuni…þar að auki fjalla sum lögin um það að vera ósannur sér eða öðrum. Þannig platan er í raun blanda margra laga og lyga sem við höfum samið á 6 ára tímabili, frá 2014-2020,“ segir Egill í spjalli við Kaffið.is.

Sjá einnig: Egill flutti 16 ára til Reykjavíkur til þess að læra leiklist- „Besta ákvörðun sem ég hef tekið“

Síðasta haust skelltu þau sér ásamt hljómsveit í stúdíó á Hótel Laugarbakka.

„Þar fengum við aðgengi að stúdíói sem hljóðmaðurinn Sigurvald Ívar Helgason, sér að mestu leyti um. Við fórum tvær helgar í heimsókn á hótelið og tókum upp alla plötuna. Þannig í raun má segja að platan sem tók 6 ár að búa til, tók 6 daga að taka upp. Við ýkjum auðvitað smá þegar við segjum þetta, við þurftum að laga sumt og taka upp aftur eftir þessar helgar – en þetta er grípandi frasi. 6 ár í vinnslu og 6 daga að taka upp,“ segir Egill.

Í hljómsveit Egils og Eikar eru þeir Hafsteinn Davíðsson á trommur, Jóhann Þór Bergþórsson á rafbassa og Pétur Smári Víðisson á gítar. Egill spilaði svo á píanó og Eik spilaði á óbó í einu lagi plötunna. Starri Snær Valdimarsson sér um mix og master á plötunni.

„Þetta er sjálfstætt verkefni og kostar gríðarlega mikið, við Eik erum bæði orðin hálfblönk og stefnum bæði í flotta og kostnaðarsama skóla næsta vetur; Eik ætlar í CVI (complete vocal institute) í Danmörku og Egill fer á sviðshöfundabraut í LHÍ. Eins græðir maður lítinn pening á að gefa út lög nú til dags, því stofnuðum við Karolinufund síðu þar sem fólk getur styrkt verkefnið og gert okkur kleift að klára síðustu metrana með stæl; með tónlistamyndböndum, flottum tónleikum og sanngjörnu kaupi fyrir alla sem koma að plötunni,“ segir Egill en tengill að söfnuninni er hér að neðan.

Eik og Egill hafa komið fram víða á sínum unga ferli. Eik var til að mynda jólastjarna Björgvins árið 2013 og á þessu ári vann hún söngkeppni MA. Egill skrifaði í fyrra söngleik fyrir Þjóðleiksverkefni hjá Þjóðleikhúsinu og þau hafa bæði komið fram á sýningum hjá Leikfélagi Akureyrar.

„Við erum enn að taka við giggum fyrir sumarið og stefnum á flotta útgáfutónleika í júlí, rétt eftir útgáfu plötunnar.Við erum búin að gefa út tvö lög af plötunni, Morgunsár og Kertavax. Lögin bæði má finna á hvaða streymisveitu sem er,“ segir Egill að lokum.

Tengill að KarolinaFund söfnun þeirra er hér: https://www.karolinafund.com/project/view/3362

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó