Ekkert AK Extreme í ár: „Súrsæt ákvörðun“

Ekkert AK Extreme í ár: „Súrsæt ákvörðun“

Snjóbretta- og tónlistarhátíðin AK Extreme mun ekki fara fram á Akureyri í ár líkt og undanfarin ár. Hátíðin fer í eins árs pásu en undirbúningur fyrir næsta ár er nú hafinn.

Emmsjé Gauti, einn af skipuleggjendum hátíðarinnar segir í samtali við Kaffið að ákvörðunin hafi verið súrsæt en vegna breytinga og tilfærslu hafi undirbúningur í ár ekki hafist nógu snemma.

Sjá einnig: AK Extreme ekki haldin á Akureyri í ár

„Það var tekin sú súrsæta ákvörðun að pása okkur í eitt ár til að ná að halda uppi gæðum á eventinum sem svo mörgum þykir vænt um,“ segir hann.

Hann segist þó ekki hafa áhyggjur af Akureyringum og að þeir muni eflaust finna leiðir til að skemmta sér þar til hátíðin snýr aftur á næsta ári.

„Það er alltaf góð stemning á Akureyri og það verður eflaust eitthvað gott partý í gangi hvort sem það er á Græna hattinum, í Sjallanum eða bara heima hjá einhverju góðu liði.“

Hann segir að ákvörðunin muni þá hafa jákvæð áhrif á hátíðina á komandi árum.

„Það eru spennandi tímar framundan og er stefnan tekin á að gera hátíðina flottari en hún hefur verið hingað til. Með því að taka okkur eitt ár í pásu gefur það hópnum tækifæri til þess að skipuleggja næsta skref vel. Við erum reyndar nú þegar byrjaðir að skipuleggja hátíðina 2020 og erum virkilega spenntir fyrir því sem mun fara niður.“

Hann býst við því að hátíðin verði „sturluð“ á næsta ári. „Við erum nú þegar búnir að tryggja okkur nýja og betri staðsetningu sem gefur okkur tækifæri á að stækka bigjumpið. Nýja svæðið býður upp á mjög mikla möguleika s.s. betra aðgengi, minna rask á umferð, stærri pall og meira augnakonfekt fyrir áhorfendur,“ segir hann að lokum.

Sambíó

UMMÆLI