Er það hlutverk verktaka að móta ásýnd bæjarins?

Er það hlutverk verktaka að móta ásýnd bæjarins?

Hildur Friðriksdóttir skrifar:

Nú hafa tveir fulltrúar SS Byggis fullyrt opinberlega að hugmyndin að fyrirhuguðum fjölbýlum við Tónatröð hafi fyrst komið upp innan SS Byggis eftir ábendingu frá skipulagsyfirvöldum um að svæðið mætti nota til að byggja fjölbýlishús. Ef þetta er rétt þá er það verulega umhugsunarvert, sérstaklega í ljósi þess að öðrum verktaka var fyrir þremur árum í þrígang neitað um að byggja mun hófstilltari fjölbýlishús á umræddum lóðum. Í bókunum skipulagsráðs við þeirri umleitan kemur fram að skipulagsráð hafni umsókninni um breytingu á deilskipulagi þar sem ekki er talið að bygging fjölbýlishúsa á þessum lóðum samrýmist útliti og yfirbragði nærliggjandi byggðar.

Líkt og fram kemur í bókun skipulagsráðs frá árinu 2018 eru fjölbýlishús á þessu svæði ekki í neinu samræmi við gildandi deiliskipulag. Það skipulag var unnið árið 2009 og tók mið af ábendingum íbúa í kring sem og þeim áherslum sem komu fram í ítarlegri byggða- og húsakönnun sem unnin var sérstaklega í tengslum við þessa deiliskipulagsvinnu. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi er gert ráð fyrir átta nýjum einbýlishúsalóðum og gerð er krafa um að hlutföll, stærðir og útlit nýrra bygginga falli sem mest að núverandi byggð. Er það gert til að tryggja samræmi í heildaryfirbragði svæðisins enda um að ræða viðkvæmt og sögulega mikilvægt svæði í elsta hluta bæjarins.

Sjá einnig: Hilda Jana á móti háhýsabyggð á Oddeyri og við Tónatröð

Sé það rétt að skipulagsyfirvöld hafi haft frumkvæði að því að benda SS Byggi á að byggja fjölbýli á lóðunum við Tónatröð þá er með því beinlínis verið að hvetja verktakann til þess að fara gegn gildandi deiliskipulagi. Hafi einhver verði í vafa um tilgang deiliskipulaga er ágætt að rifja það upp. Líkt og fram kemur á heimasíðu Skipulagsstofnunar er deiliskipulag viðurkennt verkfæri sem notað er til þess að móta byggð og umhverfi á afmörkuðu svæði svo það myndi heildstæða einingu. Þar eru sett fram ákvæði um byggingarheimildir og útfærslu bygginga s.s. stærð og lögun og frágang umhverfis og ætti því að veita hönnuðum og verktökum skýran ramma til þess að vinna eftir. Það er svo hlutverk skipulagsfulltrúa og skipulagsyfirvalda að sjá til þess að byggingaframkvæmdir séu í samræmi við skipulag. Af þessu er augljóst að það er hlutverk skipulagsyfirvalda að móta ásýnd bæjarins – ekki verktaka.

Samkvæmt lýsingum SS Byggis hefur þessum verkferlum verið snúið við þ.e. skipulagsyfirvöld færa skipulagsvöldin í hendurnar á verktakanum. Með öðrum orðum þá er bærinn hér að veita verktakanum fullt frelsi til þess að leggja fram skipulagstillögur fyrir svæðið óháð gildandi deiliskipulagi. En hvaða forsendur hafa breyst frá árinu 2018? Hvers vegna eru skipulagsyfirvöld nú að hvetja SS Byggi til að fara gegn gildandi deiliskipulagi þegar öðrum verktaka hefur áður verið neitað um slíkt hið sama? Standist þessar yfirlýsingar SS Byggis um vinnuferlið þá verður því miður ekki betur séð en að skipulagsyfirvöld séu beinlínis farin að ganga erinda einstakra verktaka. Einhver hefði jafnvel notað hugtakið spilling í því samhengi.

Það má því ýmislegt finna að vinnuferlinu en að sama skapi er líka ýmislegt athugavert við sjálfar tillögurnar sem vert er að fara yfir. Til þess að hægt sé að koma þessum tillögum SS Byggis í framkvæmd þurfa tvö hús að víkja sem nú standa vestan við Tónatröð; Sóttvarnarhúsið og Litli-Kleppur. Sóttvarnarhúsið var byggt árið 1905 og er því aldursfriðað samkvæmt lögum og Litli-Kleppur er eitt af fáum húsum á Akureyri sem hannað er af Guðjóni Samúelssyni. Bæði þessi hús eru samofin sögu spítalans á Akureyri og hafa einnig varðveislugildi sem slík. Áður en lengra er haldið með þessar tillögur er því mjög mikilvægt að leitað sé eftir áliti Minjastofnunar Íslands.

Þá má líka nefna að húsin við Spítalaveg og Tónatröð standa í mikilli brekku og er af þeim sökum mikið skuggavarp á svæðinu. Nái þessar tillögur SS Byggis fram að ganga mun skuggavarpið verða enn meira og munu þá íbúar fyrir neðan fyrirhugðu fjölbýlishús njóta takmarkaðrar sólar. Og þar sem Spítalavegur stendur í brekku er sífelld hreyfing á jarðveginum. Það þekkja íbúar götunnar mjög vel þar sem þeir hafa flestir þurft að grípa til einhvers konar aðgerða á lóðum sínum til þess að koma í veg fyrir jarðvegsskrið.  Og þar sem mikil hreyfing er á jarðveginum hafa í varúðarskyni verið settar þungatakmarkanir á götuna. Gatan er aukinheldur mjög þröng þar sem flestir íbúar þurfa að leggja bílunum sínum í götunni sökum þess að ekki hefur verið gert ráð fyrir bílastæðum við húsin í upphafi. Það verður því að teljast harla ólíklegt að gatan beri þá stórauknu umferð sem slík fjölbýli hefðu í för með sér. Þá velti ég líka fyrir mér hvort svæðið, sem stendur í mikilli brekku og er á sífelldri hreyfingu, þoli slíkt jarðrask, sem framkvæmdirnar hefðu óhjákvæmilega í för með sér.

Í lokin langar mig aðeins til þess að bregðast við umræðunni um lóðaskort á Akureyri. Í nýlegu viðtali við Akureyri Vikublað bendir Sigurður Sigurðsson framkvæmdastjóri SS Byggis á að engar lóðir séu nú lausar undir fjölbýli á Akureyri og því sjái verktakinn fram á verkefnaskort ef ekkert verður að gert. Að sama skapi segir hann það til merkis um metnaðarlitla stjórnsýslu að bærinn skuli ekki tryggja byggingafyrirtækjum öruggt framboð lóða. Hér gerir Sigurður því beinlínis kröfu um að skipulagsákvarðanir bæjarins lagi sig að þörfum verktaka. Sú krafa byggir að mínu mati á verulega bjöguðum forsendum. Skipulagsákvarðanir hljóta fyrst og fremst alltaf að eiga að þjóna hagsmunum íbúa og hagsmunum samfélagsins í heild, burtséð frá verkefnastöðu einstakra verktaka. Vissulega er æskilegt að þarfir samfélagsins og þarfir verktakans fari saman og ég get svo sem alveg haft skilning á því að það sé súrt fyrir stóran vinnuveitenda að horfa fram á mögulegan verkefnaskort. Mér er hins vegar alveg fyrirmunað að skilja að það sé raunveruleg þörf á öllum þessum fjölbýlum sem núna eru á teikniborðinu hjá SS Byggi. Mér vitanlega er enn þó nokkuð af óseldum íbúðum í þeim fjölbýlum sem hafa verið byggð að undanförnu við Drottningarbraut og í Hagahverfi. Þess utan er nú fyrirhugað að reisa allt að 350 íbúðir, m.a. í fjölbýlum, í Holtahverfi og á reitnum fyrir neðan íþróttasvæði Þórs við Skarðshlíð. Ég á því erfitt með að sjá að við munum standa frammi fyrir raunverulegum skorti á fjölbýlum hér á næstunni. Og jafnvel þó svo væri, þá getur það varla talist skynsöm lausn að ætla að fara að pota niður fjölbýlishúsum á lausum einbýlishúsalóðum til þess að bregðast við vandanum.

Og svona rétt í blálokin. Það er hlutverk skipulagsyfirvalda að móta stefnu um fyrirkomulag byggðar og mótun umhverfis. Það er ekki hlutverk verktaka. Það er líka hutverk skipulagsyfirvalda að tryggja að byggingaframkvæmdir og hönnun mannvirkja séu í samræmi við gildandi skipulag. Sé það rétt að skipulagsyfirvöld hafi bent SS Byggi á að hundsa gildandi deiliskipulag og sækja um lóðirnar við Tónatröð undir fjölbýli, þá eru þau að bregðast hlutverki sínu. Svo einfalt er það.

Sambíó

UMMÆLI