,,Erum með heimsklassa yngri flokka þjálfara á Akureyri“

Akureyri Handboltafélag er fallið úr Olís-deild karla í handbolta eftir tap gegn Stjörnunni síðastliðinn þriðjudag.

Sjá einnig: Akureyri átt handboltalið í efstu deild síðustu 33 ár

Í kjölfarið hefur myndast umræða um framtíð Akureyrar Handboltafélags sem er samstarfssverkefni KA og Þórs en þessir erkifjendur voru sameinaðir sumarið 2006 og hafa leikið undir merkjum Akureyrar síðan.

Sjá einnig: Brestir í samstarfi KA og Þórs varðandi Akureyri Handboltafélag

Kaffið leitaði til nokkra af bestu handknattleiksmönnum Akureyrar um þessar mundir til að fá viðbrögð þeirra við falli Akureyrar og hvernig þeir sjá framtíðina fyrir sér í akureyrskum handbolta. Þeir Arnór Þór Gunnarsson, Árni Þór Sigtryggsson og Geir Guðmundsson voru fyrstir til að svara og birtum við svör þeirra í gær. Sjá hér. Nú eru það þeir Atli Ævar Ingólfsson, Guðmundur Hólmar Helgason og Oddur Gretarsson. Einnig var haft samband við Arnór Atlason en hann vildi ekki tjá sig um málið.

Guðmundur Hólmar Helgason – ,,Áframhaldandi samstarf það skynsamlegasta í stöðunni“

Áframhaldandi samstarf er frá mínum bæjardyrum séð það skynsamlegasta í stöðunni. Það þarf hins vegar aðeins að núllstilla það, skoða betur hvernig málum er háttað með 2.flokk, Ungmennaliðið og Hamrana ásamt því eins og frændi minn, Geir nefndi hvernig leikskipulag og áherslur í meistaraflokki Akureyrar kvíslist niður í yngra flokka starf bæði KA og Þórs.

Guðmundur Hólmar Helgason

Ég átti ótrúlega skemmtileg og dýrmæt ár með Akureyri Handboltafélagi, fékk ungur sénsinn þegar ég var í 3.flokki KA að koma inn í hópinn þegar Rúnar Sigtryggs var að þjálfa, síðan kom Atli (Hilmarsson) sem einnig sýndi ungum, óreyndum og uppöldum stràkum traustið! Gífurlega mikilvægt sem leikmaður til að ná að þroskast og eflast sem einstaklingur og leikmaður í hópíþrótt að fá þetta traust, fá að gera mistök og læra af þeim. Fyrir það er ég gífurlega þakklátur mínum þjálfurum fyrir norðan sem og meðspilurum mínum.

Þetta verður að vera haft að leiðarljósi núna, langtímamarkmið til að byggja upp handboltahreyfinguna til framtíðar. Mér þykir mjög vænt um Akureyri og handboltann þar, marga mína bestu vini hef ég eignast i gegnum handboltann. Ég hef fulla trú um að þetta ,,bakslag“ mun ekki sundra mönnum/konum sem vinna fyrir handboltann heldur þjappa þeim saman. Það verður ekkert alslæmt að spila í Ástríðudeildinni að ári, þar eru mörg tækifæri fyrir unga leikmenn til að láta ljós sitt skína. Áfram Akureyri og áfram handboltinn.

Oddur Gretarsson – ,,Ekki hlusta á gamla sundskýlukalla í kommentakerfinu“

Mín skoðun er sú að halda áfram samstarfi félaganna. Ég í rauninni skil ekki hvernig menn fá það út að slíta samstarfinu sé lausn til árangurs. Ég meina liðið féll en það er samt enginn heimsendir, það er bara að byggja upp eins og hefur verið gert undanfarin ár. Við sjáum félög eins og t.d ÍBV og Aftureldingu sem voru í lægð en fóru í uppbyggingu og þetta eru tvö af bestu liðum landsins í dag.

Oddur Gretarsson

Mér skilst að það séu að koma upp mikið af sterkum árgöngum frá báðum félögum og það þarf einfaldlega að halda utan um þá. Við erum með heimsklassa yngriflokka þjálfara fyrir norðan sem hafa skilað óteljandi atvinnu- og landsliðsmönnum.

Það er bara kominn sá tímapunktur hjá félaginu að það þarf að fara í smá naflaskoðun og fara í skipulagt uppbyggingarstarf með markmið, og liðin þurfa að gera það í sameiningu. Hver er vilji leikmanna, þjálfara og þeim sem standa fyrir liðinu og hafa unnið fyrir það í mörg ár. Þau hafa mest að segja, ekki gamlir sundskýlukallar á kommentakerfinu.

Ég er pottþéttur á að Akureyri Handboltafélag eigi eftir að vera með lið í efstu röð aftur innan örfárra ára.

Atli Ævar Ingólfsson – ,,Þarf að halda betur utan um unga leikmenn á lokametrunum“

Atli Ævar Ingólfsson

Ég held að það sé engum til framdráttar að tefla fram tveimur liðum í meistaraflokki í handbolta á Akureyri. Hvort sem það er í karlaflokki eða kvenna. Það þarf að halda áfram með gott unglingastarf og reyna að sjá til þess að þeir leikmenn sem skila sér upp úr því haldist svo hjá félaginu þegar að þeir eru komnir í meistaraflokk. Stóra vandamálið er auðvitað það að fólk sækir í höfuðborgarsvæði á þeim aldri sem það er að skríða upp í meistaraflokk og er það vegna þess að fólk fer í nám eða eitthvað slíkt í Reykjavík.

Þór og KA eru búin að koma upp fullt af flottum leikmönnum en vandamálið er oft bara það að ekki er haldið nógu vel utan um leikmanninn á síðustu metrunum og hann ákveður að grasið sé grænna hinumegin, í Reykjavík.

Ég hef fulla trú að að liðið muni koma til baka og verði með í efstu deild mjög fljótlega. Fullt af liðum sem hafa sýnt það að það er enginn dauðadómur að falla niður í 1. deild. þó að það sé auðvitað mjög krefjandi verkefni að rífa sig upp aftur.

Sambíó

UMMÆLI