Flóra menningarhús sér um menningarstarfsemi í SigurhæðumMynd: Akureyri.is

Flóra menningarhús sér um menningarstarfsemi í Sigurhæðum

Í gær var undirritaður samningur Akureyrarbæjar og Flóru menningarhúss ehf. um leigu á Sigurhæðum til næstu fjögurra ára frá og með 1. júlí nk. Á samningstímanum verða Sigurhæðir nýttar undir margvíslega menningarstarfsemi og viðburðahald. Þetta kemur fram á vef bæjarins.

Matthías Jochumsson lét reisa Sigurhæðir árið 1903. Staða hússins hefur verið í lausu lofti en árið 2019 stóð til að seja Sigurhæðir en sú áætlun hlaut harða gagnrýni á meðal bæjarbúa. Síðasta vetur voru samningaviðræður í gangi á milli bæjarins og Hótel Akureyri en Davíð Smárason, framkvæmdarstjóri Hótels Akureyrar, sagði á þeim tíma að fallið hefði verið frá því tilboði vegna gjörbreyttra rekstraraðstæðna.

Sjá einnig: Hættu við tilboð í leigu á Sigurhæðum

„Á aðalhæð Sigurhæða verður Flóra menningarhús með starfsemi opna almenningi. Þar verður árlega sett upp innsetning í samvinnu við listafólk, hönnuði og safnafólk í tengslum við Matthías Jochumsson og Guðrúnu Runólfsdóttur, þeirra fólk, verk og þá tíma sem þau lifðu.

Eins verða þar hýstir aðrir viðburðir og sýningar, en rýmin verða líka nýtt til miðlunar og sölu á munum. Fólki gefst kostur á að nýta þá aðstöðu fyrir smærri fundi, kynningar, námskeið og annað í þeim dúr og eins fyrir móttöku smærri hópa, til að mynda úr skólum bæjarins.

Á efri hæð og í kjallara verður í góðum anda starfrækt vinnuaðstaða fyrir skapandi fólk, listamenn og frumkvöðla, fyrst og fremst fólk sem vinnur með texta í ólíkum greinum. Starfsemi í vinnustofunum hefst strax í júlí og eins verða nokkrir minni viðburðir á aðalhæðinni í sumar og haust, en eiginleg starfsemi á aðalhæð hefst frá og með vorinu 2022,“ segir í tilkynningu bæjarins.

UMMÆLI

Sambíó