Gera úttekt á matnum í mötuneytum í skólum AkureyrarbæjarEyrún Gísladóttir hefur barist fyrir auknu framboði á grænmetisfæði í skólum bæjarins

Gera úttekt á matnum í mötuneytum í skólum Akureyrarbæjar

Eyrún Gísladóttir, hjúkrunarfræðingur á Akureyri, hefur undanfarið barist fyrir því að Akureyrarbær fylgi handbók um skólamötuneyti frá embætti landlæknis þegar kemur að fæði í skólum bæjarins. Í síðustu viku átti hún fund með Karli Frímannssyni, sviðstjóra fræðslusviðs hjá Akureyrarbæ og hún segir að sá fundur hafi verið jákvæður og ánægjulegur.

Sjá einnig: Hvað eru hefðir og hversu mikilvægar eru þær okkur?

„Það er ýmislegt að gerast og greinilegt að eftir allar þessar umræður og umfjöllun eigi að gera einhverjar skoðanir og breytingar. Það er vitað og viðurkennt að margt þurfi að laga í mötuneytum skólanna hjá bænum,“ skrifar Eyrún í Facebook hópnum Mötuneyti leik- og grunnskóla Akbær.

Sjá einnig: Ekki að óska eftir því að Akureyrarbær taki kjötvörur af matseðli

Hún segir að næstu skref séu eftirfarandi:

„Verið er að gera úttekt á matnum í mötuneytum leik- og grunnskólanna í bænum. Fyrirtæki sem sérhæfir sig í svona úttektum og er ótengt bænum gerir úttekt á matnum í 2 vikur. Næringarinnihald er skoðað, matreiðsla, útlit osfrv. Þegar niðurstöður berast úr úttektinni munu niðurstöðurnar verða opinberar fyrir almenning. Ég held við vitum flest að úttektin mun ekki koma vel út. Síðan verður þá vonandi farið í þá vinnu að öll mötuneyti í leik- og grunnskólum bæjarins fari eftir handbók um skólamötuneyti frá embætti landlæknis (nýjustu útgáfu) en í því felst m.a. grænmetisréttur vikulega (vonandi oftar en það er önnur saga sem þarf að vinna með áfram) og að farið sé eftir ráðleggingum embætti landlæknis (eins og s.s á að vera gert).“

„Ég er svo glöð og ánægð og vongóð, öll sú vinna sem ég hef lagt á mig er að skila einhverju, svo er bara að sjá hversu miklu,“ segir Eyrún.

UMMÆLI