Færeyjar 2024

Hvort eigum við að hlægja eða gráta?Rannnveig Ernudóttir skrifar

Hvort eigum við að hlægja eða gráta?

Nú hef ég verið að fylgjast með þróun mála á Öldrunarheimili Akureyrar (Hlíð), líkt og fjölmargir aðrir. Það hefur ekki verið ánægjulegt, þvert á móti hefur það verið ömurlegt að horfa upp á það sem þar hefur verið að gerast.

Öldrunarheimili Akureyrar hefur verið að gera ofboðslega flotta hluti í sinni starfsemi og var t.a.m. tilnefnt til evrópskra verðlauna fyrir frumkvöðlastarf og samfélagslega nýsköpun í opinbera geiranum árið 2017.

Sjá nánar: Öldrunarheimili Akureyrar tilnefnd til evrópskra verðlauna

Slíkt gerist ekki í tómarúmi, en það gerðist hins vegar undir stjórn Halldórs S. Guðmundssonar sem tók við sem framkvæmdastjóri Hlíðar árið 2012. Halldór hefur verið afar fær í sínu starfi, enda mikill fagmaður á sviði öldrunarmála, sem dæmi er hann nú með það verkefni að vinna drög að stefnu um heilbrigðisþjónustu aldraðra til ársins 2030, að beiðni Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra Sjá nánar.

Halldóri hefur nú verið sagt upp sem framkvæmdastjóra af einkafyrirtækinu Heilsuvernd, í hagræðingarskyni. Sama má segja um margt annað starfsfólk með mikla reynslu og langan starfsaldur. T.a.m. matráðnum sem hefur starfað á Hlíð í 30 ár og er nú 65 ára gamall. Einnig hefur konu verið sagt upp, sem starfað hefur á Hlíð í 20 ár. Sjá nánar.

Það er þekkt að þegar á að hagræða í fyrirtækjum, þá er eldra fólki sagt upp, því vegna reynslu og starfsaldurs er það dýrara en yngra fólk. Þetta eru aldursfordóma, í báðar áttir. Þetta er ljótt! Já og svo á augljóslega að bjóða út matseldina á Hlíð og vera með aðkeyptan og upphitaðan mat.

Það hefur lengi verið vitað að öldrunarmálin eru vanfjármagnaður málaflokkur. Alltaf má draga þar úr þjónustu og alltaf er það málaflokkur sem á að vera rekinn hreinlega á sjálfboðaliðavinnu. Eðlilega kemur að því að vanfjármögnuð verkefni hrynja.

Það sem er svo sárt við þetta er að Halldór sem og fleira fagfólk, t.d. Sigurveig H. Sigurðardóttir og Sigrún Huld Þorgrimsdóttir, hafa einmitt verið að sýna fram á hvernig megi veita fyrirtaks þjónustu til aldraðra fyrir mun minni kostnað en nú er gert. Sjá nánar.

Þetta gerist á vakt heilbrigðisráðherra Vinstri grænna. Hvort eigum við að hlægja eða gráta?

Ég hef ekki miklar væntingar til þeirrar þjónustu sem íbúum á Hlíð verði boðið upp á við þessar hagræðingar, né hef ég miklar væntingar um betri stöðu í málaflokki aldraðra verði sama ríkisstjórn áfram næstu fjögur árin. Ég sem var svo vongóð eftir að heilbrigðisráðherra fékk Halldór í stefnumótunarvinnuna í málaflokknum. En núna er ég bara virkilega vonsvikin og áhyggjufull.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó