Prenthaus

KaffiðTV hefur göngu sína í dag

KaffiðTV hefur göngu sína í dag

Í dag, 1. mars 2024, hefur KaffiðTV göngu sína á Kaffið.is. Um er að ræða sjónvarpsstöð á netinu þar sem mannlíf, menning og fréttir frá Akureyri og nærumhverfi verða í sviðsljósinu. Í dag birtust fyrstu þættirnir á Youtube-rás Kaffið.is sem má nálgast með því að smella hér.

Stefnumót með Hörpu

Í þáttunum Stefnumót með Hörpu mun Harpa Lind Hjarðardóttir hitta þekkta Íslendinga og komast að því hvað þeim finnst skemmtilegast að gera á Akureyri ásamt því að kynnast þeim nánar. Í dag koma út tveir þættir af Stefnumóti með Hörpu. Í fyrsta þætti skellir hún sér í sund með Björk Óðinsdóttur og í öðrum þætti fer hún í göngutúr í Naustaborgum með Jóni Gnarr og hundinum Klaka.

Harpa Lind Hjálmarsdóttir hefur vakið talsverða athygli á samfélagsmiðlum undanfarið og þá sérstaklega á TikTok þar sem hún hefur safnað fleiri en fimm þúsund fylgjendum. Harpa er sjálfstætt starfandi sem einkaþjálfari og efnissmiður (e. Content creator), bæði fyrir sína eigin samfélagsmiðla og fyrir hin ýmsu fyrirtæki, auk þess að vera móðir og eiginkona.

Sjá einnig: Stefnumót með Hörpu hefur göngu sína á KaffiðTV á föstudaginn

Í vinnunni

Í þáttunum Í vinnunni mun Jóhann Auðunsson heimsækja vinnustaði í bænum og kynnast starfseminni. Í fyrsta þætti heimsækir hann Litlu Saumastofuna í miðbænum.

Jóhann er 28 ára Akureyringur. Honum finnst gaman að fíflast, spila tölvuleiki og vera með góðu fólki. „Ég ákvað að gera þætti um vinnur til þess að fá að sjá betur á bakvið tjöldin í heiminum og finnst mér það áhugavert þar sem ég er frekar forvitin manneskja að eðlisfari,“ segir Jóhann um nýja þáttinn.

Krasstófer og Ormur

Listamannatvíeykið Krasstófer og Ormur kynnast áður ókönnuðum hliðum Akureyrarbæjar og Akureyringa í þáttunum Krasstófer og Ormur. Þeir Krasstófer og Ormur eru listamenn frá Akureyri sem hafa slegið í gegn hér á Kaffið.is með skemmtilegum greinum. Nú fá fylgjendur Kaffið.is einnig að njóta þeirra í þáttunum Krasstófer og Ormur!

Auk þáttanna þriggja sem hafa hafið framleiðslu mun birtast á KaffiðTV annað áhugavert efni og fréttainnslög. Ekki missa af neinu og gerðust áskrifandi (frítt) á Youtube.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó