Kosningaáherslur Vinstri grænna: „Það skiptir máli hverjir stjórna“

Kosningaáherslur Vinstri grænna: „Það skiptir máli hverjir stjórna“

Upphafspunkturinn í kosningaáherslum Vinstri grænna fyrir komandi alþingiskosningar er að það skipti máli hverjir stjórna. Flokkurinn segir stjórnmál samtímans snúast um að brúa bilið milli þeirra verst settu og þeirra best settu. Þannig sé hægt að auka sátt, samstöðu og velsæld til framtíða. „Það þarf að láta verkin tala, leysa úr ágreiningi og vera reiðubúin að gera málamiðlanir til að ná árangri fyrir samfélagið allt,“ segir í kosningaáherslum Vinstri grænna.

Kosningaáherslum Vinstri grænna er skipt upp í eftirfarandi flokka:

Efnahagur – Skattkerfið á að vera réttlátt jöfnunartæki

Vinstri græn vilja halda áfram að styrkja rannsóknir, nýsköpun og skapandi greinar. Flokkurinn segir að „næsta skref á að vera að styrkja enn betur við Rannsóknasjóð og Tækniþróunarsjóð og gera varanlegar breytingar til að fjölga starfslaunum listamanna.“ Jafnframt vill flokkurinn skapa ný og fjölbreytt græn störf og koma í veg fyrir langtímaatvinnuleysi.

Í stefnu flokksins segir að nýta á skattkerfið til að jafna kjör, og meta kosti þess að taka upp þrepaskiptan fjármagnstekjuskatt. Flokkurinn vill réttlátt skattkerfi þar sem er ekkert rými fyrir skattaundanskot. Jafnframt eigi skattkerfið að styðja við markmið í loftlagsmálum.

Umhverfi – Ísland á að vera í fararbroddi í að losa minna og menga minna

Flokkurinn vill að þau sem nýta auðlindir í þjóðareign, hvort sem það er land, orka, sjávarauðlindin eða annað, greiði sanngjarnt gjald af þeirri nýtingu. Þá eigi Alþingi að tryggja auðlindaákvæði í stjórnarskrá ásamt skýru ákvæði um umhverfis- og náttúruvernd. Áfram þurfi að vinna að stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands og þjóðgarðs á Vestfjörðum.

Vinstri græn segja að Ísland þarf að sýna forystu og frumkvæði í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, „með tímasettri áætlun um orkuskipti í samgöngum, þungaflutningum, ­sjávarútvegi, landbúnaði og byggingariðnaði með það að markmiði að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti árið 2045“.

Flokkurinn vill að markmið Íslands um samdrátt í losun verði uppfært og að samdráttur í losun verði a.m.k. 60% árið 2030 og að kolefnishlutleysi verði náð eigi síðar en árið 2040. Flokkurinn kallar eftir eflingu almenningssamgangna, leggur áhersulu á græna tengingu milli höfuðborgarsvæðis og Keflavíkurflugvallar og að flýta uppbyggingu Borgarlínu.

Velferð – Tryggjum öllum aðgang að grunnþjónustu

Samkvæmt áherslum Vinstri grænna þarf að auka enn frekar stuðning við félagslegt húsnæði og fjölga íbúðum í almenna íbúðakerfinu. Bæta þarf lífskjör öryrkja og skapa fleiri tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu með réttlátum úrbótum á framfærslukerfi öryrkja þar sem tekjulægstu hóparnir og öryrkjar með börn eru í forgangi.

Flokkurinn leggur áherslu á að auka getu opinbera heilbrigðiskerfisins þannig að það standi enn betur en fyrir heimsfaraldur. Flokkurinn vill halda áfram að lækka kostnað sjúklinga með því að afnema öll komugjöld í heilsugæslunni og lækka gjöld fyrir tannlækningar.

Vinstri græn vilja setja fram aðgerðaráætlun gegn einmanaleika aldraðra og gera úrbætur á almannatrygginga- og lífeyriskerfinu til að auðvelda ­sveigjanleg starfslok og gera fólki kleift að vinna lengur.

Flokkurinn vill taka vel á móti flóttafólki, bæði kvótaflóttamönnum og umsækjendum um alþjóðlega vernd, enda aldrei fleira fólk verið á flótta vegna stríðsátaka og loftslagsbreytinga.

Jafnrétti – Jafnrétti kynjanna og mannréttindi allra eru undirstaða heilbrigðs lýðræðissamfélags

Í stefnu Vinstri grænna segir að tryggja þurfi betur réttarstöðu brotaþola kynbundins ofbeldis, kynferðisofbeldis og áreitni með skýrum lagabreytingum og markvissri framkvæmd.

Flokkurinn vill innleiða Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og stofna sjálfstæða mannréttindastofnun til þess að fylgja því eftir sem og öðrum mikilvægum verkefnum á sviði mannréttinda. Jafnframt segir að stíga þurfi stór skref í að útrýma launamun kynjanna og fleiri skref í hinsegin stjórnmálum, sporna þurfi gegn hatursorðræðu gegn hinsegin fólki.

Menntun – Tækifæri framtíðar byggjast á að við öll getum ræktað hæfileika okkar

Vinstri græn segja háskóla vera undirstöður sterkari þekkingargeira og að tryggja þurfi sambærilega fjármögnun þeirra og tíðkast annars staðar á Norðurlöndum. Meta þurfi reynsluna af Menntasjóði námsmanna á kjörtímabilinu og kanna hvernig breytingar á kerfinu hafa tryggt betur jafnrétti til náms. Sérstaklega þarf að skoða hvernig sjóðurinn getur stuðlað betur að byggðajafnrétti.

Þá segist flokkurinn vilja brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Nú þegar búið er að lengja fæðingarorlofið þurfi að gera tímasetta áætlun í samstarfi við sveitarfélögin um hvernig leikskólarnir geta tekið við börnum að loknu fæðingarorlofi. Þá segir flokkurinn að tryggja þurfi aðgengi að iðn- og verknámi um allt land og vill flokkurinn leggja af sérstök skólagjöld í listnámi.

Vinstri græn vilja líka að framhaldsskólanemar hafi meiri sveiganleika í lengd náms, til þess að þeir hafi aukið svigrúm til fjölbreytni og félagsstarfs.

Lesa má kosningaáherslur Vinstri grænna í heild sinni með því að smella hér.

Sjá einnig:

Kosningastefna Sjálfstæðisflokksins

Kosningastefna Samfylkingarinnar

Kosningastefna Pírata


Kaffið.is fylgist með Alþingiskosningunum í haust með áherslu á Norðausturkjördæmi. Hér má finna fleira greinar og annað gagnlegt efni tengt kosningunum.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó