Líf og fjör á Akureyri um Verslunarmannahelgina þrátt fyrir samkomutakmarkanir

Líf og fjör á Akureyri um Verslunarmannahelgina þrátt fyrir samkomutakmarkanir

Verslunarmannahelgin á Akureyri varð með öðru móti en vonir stóðu til vegna samkomutakmarkanna sem settar voru á skömmu fyrir helgina. Hátíðinni Einni Með Öllu var aflýst en þó voru ýmsir smærri viðburðir haldnir og mikill fjöldi var í bænum.

Súlur Vertical hlaupið fór fram á laugardaginn, Hjólreiðahátíð Greifans var haldin og á sunnudag kepptu hraustir Akureyringar í Crossfitmóti Norður. Þá var einnig mikið um smærri viðburði sem gátu farið fram með tilliti til samkomutakmarkanna.

Súlur Vertical hlaupið var haldið með breyttu sniði vegna sóttvarnarráðstafanna en Birkir Baldvinsson einn af skipuleggjendum hlaupsins segir að allt hafi gengið vel upp.

„Í stuttu máli má segja að framkvæmdin hafi gengið frábærlega og í öllum meginatriðum samkvæmt áætlun. Skipulagið, sem hafði tekið miklum breytingum vegna Covid-19, gekk vel eftir og keppendur eiga hrós skilið fyrir sitt jákvæða viðhorf og að fylgja öllum sóttvarnareglum. Veðrið lék auðvitað við þátttakendur og hlaupaleiðirnar skörtuðu sínu fegursta. Miðað við það sem ég hef heyrt voru keppendur, starfsfólk og allir sem að hlaupinu koma mjög ánægðir með daginn og margir búnir að boða komu sína aftur að ári.“

Á skemmtistaðnum Vamos AEY við Ráðhústorg var góð stemning um helgina en þar var haldið Mini Fest, eða Lítil Hátíð. Lokað var fyrir umferð fyrir framan staðinn og sett upp útisvið þar sem norðlenskir tónlistarmenn komu fram.

Halldór Kristinn Harðarson, einn af eigendum Vamos, segir í samtali við Kaffið að helgin hafi gengið vel. „Þetta gekk bara frábærlega upp. Það myndaðist góð stemning á torginu og við vorum með flotta Akureyringa að troða upp.“

Matarvagnar sem komu til bæjarins voru vinsælir. Á Ráðhústorgi var löng röð í kleinuhringi hjá Don’s Donuts alla helgina og við Torfunefsbryggju var Silli kokkur með matarvagn sinn sem hefur verið valinn besti götubiti Íslands undanfarin tvö ár.

„Það var heldur betur mikið að gera hjá okkur, eins og er reyndar alltaf þegar við komum til Akureyrar. Okkur er alltaf svo vel tekið og það er ástæðan fyrir því að við reynum að koma reglulega. Við vorum einnig hér í fyrra, við mætum öll fjölskyldan og allir vinna,“ segir Silli í spjalli við Kaffið. Hann segir að hreindýraborgararnir og gæsaborgararnir sem hann býður upp á hafi verið vinsælir hjá Akureyringum.

Börkur Árnason, varðstjóri hjá lögregunni á Akureyri segir að helgin hafi farið nokkuð vel fram þrátt fyrir mikinn eril hjá lögreglu. Hann segir að það hafi komið um 220 mál upp á borð hjá lögreglu. Tjaldsvæðin í bænum voru full og Börkur segir að talsvert hafi verið um hávaðaútköll á tjaldsvæðunum og fólk hafi reynt að smygla sér inn.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó