Prenthaus

Mikið um hraðakstur á Hörgárbraut

Mikið um hraðakstur á Hörgárbraut

Hraðamyndavélar og rauðljósamyndavélar voru teknar í notkun á Hörgárbraut á Akureyri fyrir skömmu. Síðan þá hefur lögreglan á Akureyri orðið vör við mikinn hraðakstur á veginum.

Sjá einnig: Hraða- og rauðljósamyndavélar teknar í notkun á Hörgárbraut

„Vélarnar voru settar upp af gefnu tilefni en á Hörgárbraut hafa því miður orðið alvarleg slys. Það er mikil umferð um Hörgárbraut, við vitum það, en við erum samt að sjá allt of margar myndir koma frá vélunum,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.

Hámarkshraðinn á Hörgárbraut er 50 kílómetrar á klukkustund. Ef keyrt er hraðar taka myndavélarnar mynd sem fara jafnharðan til úrvinnslu hjá lögreglu og brotlegir fá skilaboð á Ísland.is um að von sé á sekt í heimabanka.

„Eigum við ekki að taka okkur saman um að stuðla að bættu umferðaröryggi með því að gæta að ökuhraðanum og virða gildandi hámarkshraða og nota svo peningana í eitthvað skemmtilegra en sektargreiðslur. Munum svo að skólarnir eru byrjaðir og hálkan og myrkrið bankar uppá með tilheyrandi hættum. Förum varlega og pössum upp á litlu hnoðrana sem eru að labba í og úr skólanum,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.

UMMÆLI

Sambíó