Origo Akureyri

Rafskútur Hopp ná yfir alla byggð á Akureyri og drífa upp gilið

Rafskútur Hopp ná yfir alla byggð á Akureyri og drífa upp gilið

Rafskútuleigan Hopp opnar von bráðar á Akureyri og er markmiðið í augnablikinu að hjólin verði komin á götur Akureyrar fyrir sumardaginn fyrsta. Eyþór Máni Steinarsson, framkvæmdastjóri Hopp segir að öll hjólin séu komin til Akureyrar og nú sé einungis verið að bíða eftir betra veðri áður en þjónustan verði sett af stað.

65 rafskútur frá Hopp verða starfræktar á Akureyri. Enn er verið að leggja lokahönd á fyrstu útgáfu af þjónustusvæði á Akureyri en markmiðið er að ná yfir alla byggð á Akureyri. Eyþór Máni er spenntur fyrir opnuninni.

„Við trúum því að þessi þjónusta verði geysivinsæl á Akureyri alveg eins og í Reykjavík. Axel Jensen mun reka og eiga Hopp á Akureyri en við værum að sjálfsögðu ekki að fara í þennan rekstur ef við héldum ekki að þetta myndi ganga vel. Við erum með sérstaklega öflugan mótor í hjólunum okkar sem drífur upp Gilið og hvert sem er annarsstaðar á Akureyri,“ segir Eyþór í spjalli við Kaffið.

Sjá einnig: Stefnt að því að fá 65 rafhlaupahjól til Akureyrar í apríl

„Starfsemin á Akureyri verður rekin eingöngu á vistvænum bílum, alveg eins og í Reykjavík, og verður fullkomlega kolefnishlutlaus.“

Hann segir að viðtökurnar við rafskútunum hafi verið framúr bestu vonum frá því að Hopp hóf starfsemi í Reykjavík fyrir tveimur árum.

„Við opnuðum með bara 60 skútum í Reykjavík en erum núna komin með 20 sinnum fleiri skútur þar, og erum í sumar að opna víðsvegar annarsstaðar á landinu. Eins og Akureyri, Vestmannaeyjum, Egilsstöðum, Reykjanesbæ, Hellu og Tröllaskaga. Við erum núna komin með meira en 80.000 notendur sem hafa samtals ferðast vel meira en milljón kílómetra á hlaupahjólunum okkar.“

„Hopp er alíslenskt fyrirtæki, en allt frá hugbúnaðinum yfir í reksturinn er rekið hérlendis. Við erum núna að vinna í stækkun erlendis, en erum nú þegar búin að opna okkar fyrsta erlenda sérleyfi á Spáni í Orihuela Costa,“ segir Eyþór að lokum. Hann bendir Akureyringum á að hafa samband á netfangið akureyri@hopp.bike ef fólk hefur einhverjar athugasemdir við þjónustusvæði Hopp.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó