Segir ferlið með Öldrunarheimili Akureyrar minna á leikjaaðferðir á Thatcher tímanum

Segir ferlið með Öldrunarheimili Akureyrar minna á leikjaaðferðir á Thatcher tímanum

Teitur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Heilsuverndar, og Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, ræddu ákvörðun Heilsuverndar að segja upp fólki á hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri í þjóðmálaþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Teitur Guðmundsson segir að það hefði alltaf verið augljóst að það þyrfti að skoða hlutina mjög vel og greina vandann þegar Heilsuvernd tók við rekstrinum. Hann segir markmiðið vera að verja þjónustu þrátt fyrir uppsagnir.

Sjá einnig: Starfsfólki á hjúkrunarheimilinu Hlíð sagt upp

„Öllum breytingum fylgja auðvitað einhversskonar hreyfingar á rekstri, strúktur, skipulagi, mannskap og í rauninni hvernig menn ætla að gera hlutina. Við tókum þá ákvörðun að við þyrftum að taka þetta skref, sem er auðvitað alltaf mjög erfitt og okkur þykir það mjög leiðinlegt en það er engu að síður nauðsynlegt til þess að í raun og veru vernda þá starfsemi sem þarna fer fram. Við erum að gera þetta af ábyrgð myndi ég kalla, við komum inn í verkefni sem er erfitt og þungt, við tökum við í gegnum lög um aðilaskipti þannig að við tökum við þessu eins og það var nákvæmlega eins, og við berum allar þær skyldur sem þar fylgja en okkur er heimilt að gera hagræðingarkröfu á okkur og framfylgja henni, sem við gerum,“ segir Teitur.

Hann segir að það sé augljóst hvers vegna það þurfi að gera þetta þegar litið er á tölurnar, hann telur að það sé verið að fara eins varlega og hægt er en örugglega samt.

„Við erum að reyna að leysa vandann hratt og komast áfram. Það er ekki hægt að lofa því að þetta sé síðasta aðgerðin á þessum vanda en það er í bili hugsunin,“ segir Teitur.

Logi Einarsson segir að honum finnist mjög furðulegt hvernig þetta hafi allt saman teiknast upp.

„Það er búið að liggja fyrir í mjög mörg ár að það vanti nokkra milljarða inn í rekstrargrunninn á heimilinum í landinu. Akureyrarbær er búinn að borga milli fjögur og fimm hundruð milljónir með þessum rekstri árlega og taldi sig ekki geta gert meira vegna þess að þetta bitnar bara á samkeppnishæfni sveitarfélagsins. Það þarf að taka úr annarri lögbundinni þjónustu. Meira að segja líka heimaþjónustu fyrir aldraða, fötluð börn, tómstundir, menning og annað slíkt,“ segir Logi.

Hann spyr hvers vegna ekki hafi verið hægt að koma til móts við Akureyrarbæ með sama hætti og komið er til móts við Heilsuvernd rekstrarlega séð.

„Sko þetta ferli minnir mig dálítið á leikjafræðina á Thatcher tímanum, þar sem að þrengt var að opinberri starfsemi og hún var gerð tortryggileg, hún var gerð erfið, þangað til að aðilar gáfust upp og þessu var komið í hendurnar á einkafyrirtækjum.“

Umræðurnar í Sprengisandi í heild sinni má hlusta á á vef Vísis með því að smella hér.

 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó