Skíðasvæðið á Dalvík mun opna aftur

Skíðasvæðið á Dalvík mun opna aftur

Í fréttatilkynningu frá Skíðafélagi Dalvíkur kemur fram að skíðasvæðið muni opna aftur. Stefnt er að því að opna svæðið aftur 10. apríl ef veður leyfir.

Sjá einnig: Skíðasvæðinu á Dalvík lokað í kjölfar dóms

Á mánudag var greint frá því að skíðasvæðinu yrði lokað um óákveðinn tíma frá og með  þriðjudeginum 4. apríl. Ákvörðunin var tekin í kjölfar dóms héraðsdóms Norðurlands eystra þar sem Skíðafélagi Dalvíkur var gert að greiða konu sem slasaðist á skíðum 7,7 milljónir í skaðabætur.

Snæþór Arnþórsson formaður Skíðafélags Dalvíkur sagði að dómurinn hefði komið á óvart þar sem talið hafði verið að skíðafólk beri ábyrgð á sjálfu sér.

Skíðakonunni voru dæmdar 7,7 milljónir króna í bætur, með vöxtum frá þeim degi sem slysið varð. Hún fékk gjafsókn úr ríkissjóði. Í dómnum kemur fram að konan hafi verið varaformaður skíðafélagsins þegar slysið varð en hún gat lengi vel ekki sinnt vinnu vegna meiðsla sem hún varð fyrir.

Slysið atvikaðist með þeim hætti að hún skíðaði fram af stalli sem búinn hafði verið til með troðara og var ekki sérstaklega merktur.

UMMÆLI