Múlaberg

Skjól fyrir þriggja stiga körfur í Garðinum hans Gústa

Skjól fyrir þriggja stiga körfur í Garðinum hans Gústa

Fyrsta skóflustungan að Garðinum hans Gústa var tekin um miðjan júlí í sumar. ÖRUGG verkfræðistofa var fengin til þess að meta bestu staðsetningu körfuboltavallarins með tilliti til staðbundins vindafars. Þrjár mögulegar staðsetningar voru bornar saman og tölfræðileg úrvinnsla greiningarinnar sýndi að skjólsælasta svæðið yrði norðan við skólabygginguna.

Sjá einnig: Fyrsta skóflustungan tekin að Garðinum hans Gústa

Garðurinn hans Gústa er körfuboltavöllur sem mun rísa norðan við B-álmu Glerárskóla. Sett verður upp girðing umhverfis völlinn og meðfram norðurhlið vallarins verður svæði fyrir áhorfendabekki og gróðurbelti. Umsjón með uppsetningu og framkvæmd verður hjá vinum Ágústs H. Guðmundssonar í nánu samstarfi við Umhverfis- og mannvirkjasvið Akureyrarbæjar.

Tölulegt straumfræðilíkan (CFD) var sett upp til að herma vindflæði í kringum skólann og nærliggjandi byggingar svo að hægt væri að finna bestu staðsetninguna sem myndi tryggja sem flestar þriggja stiga körfur.

Blálituð svæði á myndinni eru svæði þar sem dregur úr vindhraða vegna mannvirkja í kring og rauðlituð svæði eru svæði þar sem vindhraðinn eykst. Greining á veðurgögnum sýndu að á skólatíma voru sunnanáttir (S- og SSA-átt) tíðastar að vetri og hausti, en á sama tíma voru norðaráttirnar (N- og NNV-átt) þó hvassari. Ennfremur, þá var vindur úr þessum fjórum vindáttum í ca. þrjú af hverjum fimm skiptum að vetri til.

Svæðið norðan við skólabyggðina var valið þar sem líkur á því að staðbundinn vindhraði yrði hærri en þröskuldsgildi, voru lægstar fyrir þetta svæði. Bæði veita skólabyggingarnar skjól fyrir sunnanáttunum og auðvelt væri að bæta í trjágróður sem er syðst á íþróttasvæði Þórs.

Mynd: oruggverk.is

UMMÆLI

Sambíó