Þróa fiskileður sem mun leysa gerviefni af hólmi og draga úr mengun og losunMaría Dís Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri AMC ehf

Þróa fiskileður sem mun leysa gerviefni af hólmi og draga úr mengun og losun

Nýsköpunarfyrirtækið AMC fékk nýverið tveggja ára sprotastyrk frá Rannís upp á samtals 20 milljónir króna til þess að þróa fyrsta samsetta fiskileðrið á Íslandi. Fyrirtækið er í eigu ungs frumkvöðlapars á Norðurlandi, þeirra Maríu Dísar Ólafsdóttur og Leonards Jóhannssonar.

María er lífverkfræðingur og Leonard er vélfræðingur. Þau hafa áður fengið styrki frá Rannís vegna verkefnisins og þá vann hugmynd þeirra hugmyndasamkeppni Norðansprotans síðasta vor. Í framhaldi af því tóku þau þátt í hraðlinum Vaxtarrými sem lauk fyrir skemmstu.

Sjá einnig: Níu verkefni klára Vaxtarrými Norðanáttar

Verkefnið hefur nú fengið endanlegt nafn og mun bera heitið Nanna Lín. Vinna hófst síðastliðið vor þó hugmyndin sé ári eldri. Nanna Lín er leður gert úr afgangs roði og mun lokaafurðin vera sterkt og gott leður í metravís.

„Með því að nýta hliðarafurðir til leðurgerðar má til dæmis leysa ýmis gervi textílefni af hólmi og draga með því úr mengun og losun vegna þeirra. Varan er til að mynda ætluð húsgagnaframleiðendum, bólstrurum og öðrum hönnuðum sem vinna með textíl. Þetta er mjög stórt og spennandi verkefni sem við eigum fyrir höndum. Með því að bjóða upp á stóra fleti af leðri má ná mun betri nýtni í framleiðslu á vörum, samanborið við leður sútað með hefðbundnum hætti,“ segir María við Kaffið.is.

Þessa dagana er teymið að koma nýrri heimasíðu í loftið og láta endurteikna merki fyrirtækisins.

„Jólunum verður eytt í rólegheitunum, en svo fer allt á fullt eftir áramót. Ég hef alltaf haft óendanlegan áhuga á hliðarafurðum og því púsli sem því fylgir. Fyrir mér er þetta eitthvað sem þarf að gera, og þarf að fullreyna. Við höfum fengið mikin stuðning og fólk er almennt mjög spennt fyrir verkefninu,“ segir María.

UMMÆLI

Sambíó