Tveimur leikskólum lokað á Akureyri?

Aðalskipulag Akureyrar 2018-2030 var kynnt á sérstökum skipulagsfundi í Hofi í gær, þriðjudaginn 28. mars. Farið var yfir hina ýmsu þætti sem skipulagið kemur inn á og fólk beðið að hafa í huga að skipulagið er á frumstigi. Skipulagið er sett fram 12 ár í senn, þó er það verk nýrrar bæjarstjórnar hverju sinni að endurskoða aðalskipulag og gera á því breytingar í síðasta lagi ári eftir kosningar, sem þýðir að það er mögulegt að fá skipulaginu breytt.

Á fundinum komu fram áform um að byggja 260 íbúðir á Kotárborgum, svæðinu milli Háskólans á Akureyri og leikskólans Pálmholts.

Samkvæmt skipulaginu stendur í kjölfarið til að loka leikskólanum Pálmholti þar sem hann stendur nú og færa hann við Glerárskóla, ásamt leikskólanum Hlíðarbóli. Kaffið greindi frá því á dögunum að Hlíðarbóli yrði lokað í sumar.

Athugasemdir voru viðraðar á fundinum um hvernig bærinn réttlæti það að foreldrar eigi að fara bæjarenda á milli með börnin sín í og úr tilætluðum leikskóla við Glerárskóla. Tekið skal fram að Fræðslusvið Akureyrarbæjar stendur fyrir þessum breytingartillögum leikskólanna.

Hægt er að kynna sér skipulagið nánar hér.

Þeir sem hafa eitthvað út á umrætt svæði að setja eða skipulagningu þess eru hvattir til að hafa samband við skipulagsnefnd með skriflegum og vel rökstuddum athugasemdum. Hægt er að senda athugasemdir á skipulagssvid@akureyri.is.

 

Leikskólinn Pálmholt

UMMÆLI