Úttekt á gervigrasi í Boganum lokiðMynd: Páll Jóhannesson

Úttekt á gervigrasi í Boganum lokið

Samkvæmt úttekt Akureyrarbæjar á gervigrasi í Boganum stóðst völlurinn skoðun í fimm atriðum af sex. Í tilkynningu frá bænum segir að sléttleiki vallarins gæti verið betri.

Tilgangur úttektarinnar var að fá óháðan aðila til að meta ástand gervigrasvallarins og hvort gæði væru í samræmi við kröfur Alþjóðaknattspyrnusambandsins (FIFA). Mikið hefur verið rætt um grasið í Boganum og slysahættu vallarins undanfarið.

Úttektin var gerð af fyrirtækinu Sports Labs þann 4. mars. Boginn er mikið notaður til æfinga og keppni flesta daga ársins, bæði af börnum og fullorðnum, og því skiptir miklu máli að gæði vallarins séu fullnægjandi. Skipt var um gervigras árið 2016. Fyrr í vetur var gert við helstu skemmdir á vellinum og í kjölfarið ráðist í umrædda úttekt, auk þess sem vinna hófst í samstarfi Akureyrarbæjar og umsjónaraðila Bogans um bætt verklag varðandi umhirðu og viðhald. Þá hefur tækjakostur verið bættur, meðal annars til þess að bleyta völlinn og losa upp gúmmí til þess að mýkja völlinn. Samkvæmt niðurstöðum úttektarinnar er mýkt vallarins í samræmi við staðla FIFA.

Fræðslu- og lýðheilsuráð Akureyrarbæjar fjallaði um niðurstöður úttektarinnar á fundi sínum í vikunni og óskaði eftir því við umhverfis- og mannvirkjaráð að í sumar verði farið í viðgerðir á ójöfnum. Að loknum viðgerðum skuli gerð önnur úttekt á ástandi vallarins og niðurstöður þeirrar úttektar kynntar hlutaðeigandi aðilum og fræðslu- og lýðheilsuráði með tilliti til fjárhagsáætlunarvinnu ráðsins fyrir árið 2023.

Eftir samráð við forsvarsmenn KA og Þórs óskaði ráðið einnig eftir því við umhverfis- og mannvirkjaráð að teknir verði saman möguleikar, ásamt kostnaði, kostum og göllum á búnaði í til að bleyta gervigrasið í Boganum fyrir leiki og æfingar.

Sjá einnig: Viðgerðir á gervigrasinu í Boganum

UMMÆLI