Prenthaus

Vertu velkomin Rósa frænka

Vertu velkomin Rósa frænka

Undanfarin ár hefur umræða um viðkvæm málefni opnast þar sem ekki er hikað við að tala um kynhneigðir, kynlíf eða geðræn veikindi svo dæmi séu tekin. Mánaðarbundnar blæðingar kvenna eru einnig umræðuefni sem hægt er að tala um án þess að skapa mjög svo vandræðalega stemmningu. Það er kannski helst hjá ungum stúlkum, sem eru að upplifa sína fyrstu tíðahringi, að þær eru mögulega feimnar við að ræða um mánaðarlegu heimsóknina frá Rósu frænku. 

Ungar stúlkur fá markvissa fræðslu í skólunum um breytingarnar sem verða á líkama þeirra á kynþroskaárunum. Helstu viðbrigðin verða líklega tíðablæðingarnar sem geta jú haft töluverð áhrif á daglegt líf. Fyrirtíðaspenna, túrverkir, löngun í súkkulaði og skróp á sundæfingu er örugglega allt eitthvað sem við konur könnumst við. Auðvitað er þetta mögnuð starfsemi hjá líkamanum og gerir okkur kleift að skapa nýtt líf. En á sama tíma er þetta ekki beint í uppáhaldi hjá okkur. Eða hvað?

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Nú var ég í blæðingastoppi í tíu ár og sem 27 ára ung kona, þá telst það vera afar óheilbrigt. Til að byrja með var ég fegin því að losna við þetta mánaðarlega vesen. En með tímanum lærði hversu mikilvægar blæðingar eru fyrir líkamann. Og í kjölfarið hóf ég vegferð mína að endurheimta heimsóknir Rósu frænku. 

Brenglun á blæðingum getur birst í mörgum myndum en beinum aðeins sjónum að HA eða hypothalamic amenorrhea. Það er annars stigs blæðingastopp hjá konum sem hafa áður verið á reglulegum blæðingum. Vegna of lítillar orkuinntöku, of mikillar hreyfingu og/eða of mikillar andlegrar streitu stöðvar líkaminn mánaðarlegar tíðablæðingar. Þessi gerð af blæðingastoppi getur því verið algeng meðal íþróttafólks, einstaklinga með átröskun eða þeirra sem eru undir miklu álagi. Í rauninni er líkaminn að bregðast við þessu mikla líkamlega og/eða andlega álagi með því að slökkva á hormónastarfseminni. Þá getur kroppurinn notað tiltæka orku í líkamsstarfsemi sem er lífsnauðsynleg eins og hjartslátt og öndun. Hér er einfaldlega um að ræða forgangsröðun líkamans til að halda sér lífi. 

Það truflar yfirleitt ekki konur að sleppa við tíðablæðingarnar nema þær séu með plön um barneignir. En það á hins vegar að trufla þær af því að blæðingar og hormónastarfsemi gegna fleiri hlutverkum. Við skort á hormóninu estrógen aukast líkur á hjarta- og æðasjúkdómum og einnig er mikil hætta á beinþynningu. Önnur einkenni eru svefnleysi, minni kynhvöt, hárlos, kvíði og þunglyndi. Síðast en ekki síst hefur ástandið óneitanlega áhrif á frjósemi. Ég er ekki menntaður sérfræðingur á þessu sviði og forðast því að fara of náið í einhver fræði sem ég þekki ekki. En ég get sagt með vissu að blæðingastopp hefur fjölþætt áhrif á líkamsstarfsemina. 

Að fá hana Rósu frænku í reglulegar heimsóknir er þar af leiðandi hið besta mál. Þessar heimsóknir gefa það upp að hormóna- og efnaskiptastarfsemi er innan eðlilegra marka og beinheilsan sé í góðum farvegi. Með reglulegum blæðingum er líkaminn að láta vita að það ríkir ekki neyðarástand. Rósa er því meira en velkomin í heimsókn með sín skilaboð og ekki bara svo við getum fjölgað mannkyninu. 

*Not getting your period might be convenient, but it‘s not normal*

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó