Dr. Yvonne Höller hefur hlotið framgang í stöðu prófessors við sálfræðideild Háskólans á Akureyri frá og með 1. júlí 2020 og er þar með yngsti prófessor Háskólans á Akureyri frá upphafi. Þetta kemur fram á vef skólans.
Þar segir að Yvonne hafi verið dósent við sálfræðideild frá árinu 2017 en hún er með doktorsgráðu í sálfræði frá háskólanum í Salzburg.
„Prófessorsstaða Yvonne er mikilvægt skref í eflingu rannsókna á sviði sálfræði við Háskólann á Akureyri og eflingu sálfræðirannsókna í landinu öllu. Árangur Yvonne er einstakur þegar litið er til hversu miklu hún hefur áorkað nú þegar og ljóst er að öflugt rannsóknarteymi hefur myndast innan sálfræðideildar við Háskólann á Akureyri. Teymið mun styrkja fræðasviðið enn frekar í þeirri vinnu að sækja um heimild til doktorsnáms í nánustu framtíð,“ segir á vef HA.
Rannsóknir Yvonne eru á sviði heilalínurits (EEG) í tengslum við heilasjúkdóma. Helstu birtingar hennar í vísindatímaritum hafa verið á tengslum sjúkdóma á meðvitund, heilabilun, flogaveiki og mænuskaða við sálræna þætti. Sérstakt rannsóknaráhugasvið Yvonne er á sviði minnis og heilasjúkdóma.
Í dag leiðir Yvonne rannsóknarverkefni á sviði flogaveiki sem hún hefur hlotið styrk til að framkvæma í samvinnu við Department of Mathematic and Neurology í Salzburg. Undanfarin misseri hefur Yvonne starfað við EEG-rannsóknarstofuna við Háskólann á Akureyri þar sem hún rannsakar breytingar á virkni heilans meðal fólks sem búsett er á Íslandi og þjáist af skammtímaþunglyndi.
Akademískt starfsfólk við Háskólann á Akureyri getur sótt um framgang í starfi byggt á menntun, rannsóknarvirkni, kennslu og þátttöku í stjórnun. Mat á umsóknum er í höndum dómnefndar háskólans, sem metur árangur og virkni umsækjanda í starfi. Í framhaldi ákveður rektor á grundvelli dómnefndarálits hvort veita skuli framgang í starfi. Mat á umsóknum um framgang er í samræmi við reglur háskólans þar að lútandi.
UMMÆLI