Jón Páll segir upp störfum sem leikhússtjóri

Jón Páll Eyjólfsson mun láta af störfum sem leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar frá og með 1. janúar 2018. Jón Páll gaf þetta út á Facebook-síðu sinni fyrr í dag og segir ástæðuna vera sú að Akureyrarbær sjái ekki fram á að geta staðið við samning við leikfélagið um stefnu þess.

Jón Páll hefur sinnt starfi leikhússtjóra í þrjú ár en hann var ráðinn leikhússtjóri í desember 2014. Hann segir að á þessum þremur árum hafi honum verið falið að breyta rekstri og umgjörð LA í takt við rekstur undir nýju sameiginlegu félagi, Menningarfélagi Akureyrar.

„Lögð var áhersla á að ná tökum á framleiðslu leikfélagsins þannig að sannarlega væri framleidd sviðslist eftir kröfum samnings MAk við Akureyrarbæ en að ekki væri farið fram úr fjárheimildum til framleiðslu og reksturs leiklistarsviðs. Á þessum þremur árum hefur tekist að standast þær væntingar með ráðdeild og frábæru starfsfólki og listamönnum,“ segir í færslu Jóns.

Hann segir að á sama tíma hafi þeim verið gert að móta framtíðarsýn fyrir atvinnuleikhús á Akureyri. Stefnumótuninni hafi verið lokið á vordögum 2017 og kynnt hafi verið ítarleg og makmiðssett stefna til ársins 2020. Jón segir að með nýjum samningi við Akureyrarbæ muni þessi markmið ekki nást fyrir 2020.

„Skýrt var að minni hálfu að stefnan skyldi liggja til grundvallar nýjum samningi Akureyrarbæjar við MAk til þriggja ára. Enda stefnan samþykkt af stjórn MAk og kynnt opinberlega. Nú þegar liggja fyrir drög að nýjum samningi er ljóst að ekkert af þessum markmiðum mun nást fyrir 2020.“

Ekki verði kleift að fastráða neina leikara, leikfélagið muni einungis hafa bolmagn til þess að framleiða þrjú verkefni á næsta leikári og þau þurfi að vera smá í sniðum og fámenn.

„Það er því ljóst að nærri ekkert stendur eftir af markmiðum í stefnu leiklistarsviðs MAk, leikfélags Akureyrar. Undirritaður var ráðinn til þess að breyta rekstri og umgjörð LA í takt við rekstur undir nýju sameiginlegu félagi Menningarfélagi Akureyrar og að móta framtíðarsýn fyrir atvinnuleikhús á Akureyri undir merkjum Leikfélags Akureyrar. Fyrra markmiðið hefur náðst samhliða því hefur frammúrskarandi listrænn ávinningur náðst þrátt fyrir knappann fjárhag. Áhorfendur virðast hafa tekið sitt ástkæra leikfélag í sátt og sækja nú hið glæsta Samkomuhús af miklu kappi.

Jón Páll segir að nýi samningurinn afhjúpi djúpan skort á skilningi á mikilvægi LA og þau djúpu og dýrmætu áhrif sem það hefur á lífsgæði okkar og möguleika barna til auðugs og hvetjandi lífs.Hann hafni þeirr framtíðarsýn sem Jón leiddi í samstarfi við fulltrúa úr stjórn Menningarfélagsins og Leikfélagsins.

„Ég mun gera mitt ítrasta til þess að gera næsta leikhússtjóra kleift að taka við með sem auðveldustum hætti þannig að ekki verði ósamfella í rekstri leiklistarsviðs og undibúningur næsta leikárs geti orðið með sem bestum hætti.“

Færslu Jóns má sjá í heild sinni hér að neðan.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó