Markið í Moskvu

Lenín-leikvangurinn í Moskvu sem nú gengur undir nafninu Luzhniki Stadium

Brynjar Karl Óttarsson skrifar:

Hver man ekki eftir markinu í Moskvu í maí 1989? Markinu sem breytti öllu. Ólafur með langt innkast, Atli skallaði áfram, Sigurður náði ekki til knattarins, Halldór sem var á auðum sjó inni í vítateignum vinstra megin skoraði framhjá markverði Sovétmanna, Rinat Dasayev. Tíu ógleymanlegar sekúndur í knattspyrnuleik. Þjóðin ærðist af gleði meðan hún fylgdist með á sjónvarpsskjánum. Karlalandsliðinu í knattspyrnu hafði tekist hið ómögulega. Að ná í stig í undankeppni stórmóts á erfiðum útivelli, sennilega einhverjum þeim erfiðasta sem um gat á þessum árum. Jafntefli við Dani í Kaupmannahöfn árið 1959 í undankeppni Ólympíuleikanna (1-1) og gegn Wales í Swansea árið 1981 í undankeppninni fyrir HM 1982 (2-2) voru einu stigin sem íslenska landsliðið hafði krækt sér í á útivelli gegn sterkum andstæðingum þegar kom að leiknum gegn Sovétríkjunum.

Til marks um styrkleika Sovétmanna á þessum tíma var frábær árangur liðsins í Evrópukeppninni í Vestur-Þýskalandi sumarið áður þar sem það lék til úrslita gegn Hollendingum. Á styrkleikalista Alþjóða knattspyrnusambandsins í upphafi árs 1989 var sovéska liðið í öðru sæti ásamt Brasilíu. Ísland var í 61. sæti, einu sæti neðar en Norður-Kórea. Í liði Sovétmanna voru hetjur frá HM ´86 og EM ´88 – Kuznetsov, Aleinikov, Protasov, Zavarov, Rats og Dobrovolsky svo einhverjir séu nefndir. Ekkert benti til annars en að sovéski björninn færi með öruggan sigur af hólmi. Í íslenska liðinu voru einnig miklar hetjur, þar af þrír leikmenn úr heimabyggð. Auk markaskorarans Halldórs Áskelssonar voru þeir Gunnar Gíslason og Þorvaldur Örlygsson í íslenska leikmannahópnum. Tvær helstu stjörnur liðsins voru fjarri góðu gamni, þeir Ásgeir Sigurvinsson og Arnór Guðjohnsen. Mark í Moskvu var því borin von.

Leikmenn sovéska landsliðsins höfðu litla ástæðu til að fagna þann 31. maí 1989

Að kvöldi miðvikudagsins 31. maí gengu 11 leikmenn íslenska liðsins inn á Lenín-leikvanginn í Moskvu. Um 80.000 áhorfendur voru mættir til að sjá feykisterkt lið heimamanna fara með skyldusigur af hólmi gegn örþjóðinni Íslandi í undankeppni fyrir HM á Ítalíu árið eftir. Sovétmenn leiddu riðilinn. Íslendingar, Austur-Þjóðverjar, Tyrkir og Austurríkismenn börðust um annað sætið. Dagskipunin var skýr. Standa vörnina og einbeiting í föstum leikatriðum. Brjóta á bak aftur þunga sókn Sovétmanna og nýta aukaspyrnur og innköst. Skipulagið hélt, staðan í hálfleik var 0-0. Á 65. mínútu leiksins fengu Sovétmenn aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig íslenska liðsins. Igor Dobrovolsky skaut föstu skoti að markinu sem Bjarni Sigurðsson markvörður náði ekki að verja og staðan því orðin 1-0 fyrir Sovétríkin. Á þessum tímapunkti áttu margir heima í stofu von á erfiðum 25 mínútum, stórskotahríð sovéska liðsins og nauðvörn Íslendinga. Annað átti eftir að koma á daginn. Heimamenn töldu sigurinn vísan og urðu kærulausir á meðan íslenska liðið neitaði að gefast upp. Þjálfari íslenska liðsins, Siegfried Held, var klókur. Hann setti tvo leikmenn inn á sem báðir komu við sögu í markinu í Moskvu. Rúnar Kristinsson var upphafsmaður að tíu sekúndna leikkaflanum. Hann krækti í innkastið sem Halldór Áskelsson gerði sér mat úr með því að þruma knettinum upp í þaknet sovéska liðsins á 86. mínútu. Þögn sló á áhorfendur á Lenín-leikvanginum. Tíminn var of naumur fyrir Sovétmenn á ná í stigin tvö sem í boði voru. Íslendingar trúðu vart sínum eigin augum þegar finnski dómarinn flautaði til leiksloka. Þó sigur hafi ekki unnist var stærsti sigur íslenska landsliðsins á knattspyrnuvellinum engu að síður staðreynd. 

Mark Halldórs Áskelssonar í Moskvu var fyrsta markið sem Sovétmenn fengu á sig í undankeppni HM á þeirra eigin heimavelli í 24 ár. Liðið hafði spilað vel á annan tug leikja í röð án þess að fá á sig mark þegar íslenska liðið mætti til leiks á Lenín-leikvanginum. Markið í Moskvu var enn fremur fyrsta hindrun Sovétmanna á samfelldri sigurgöngu þeirra á heimavelli í undankeppni HM í 31 ár. Liðið hafði unnið alla heimaleiki sína frá árinu 1958 þar til smáþjóðin kom, sá og „sigraði“. Markið í Moskvu breytti öllu. Mönnum varð nú ljóst að með baráttu, leikgleði  og gott skipulag að leiðarljósi var allt mögulegt, á hvaða leikvelli sem var, hvað sem andstæðingurinn hét. Landsliðsþjálfari Íslands lét hafa eftir sér í viðtali eftir leik að liðið hefði spilað agað og beint frá hjartanu og fyrirliði liðsins, Atli Eðvaldsson, talaði um stórt hjarta Íslendinga en breiðan brjóstkassa Sovétmanna. Kunnugleg stef úr samtímanum. Með jafnteflinu héldu Íslendingar í vonina um sæti á HM á Ítalíu. Þó draumurinn hafi ekki ræst var fræjum sáð. Uppskeran er núna á stóra sviðinu í Rússlandi.

Halldór Áskelsson skoraði markið í Moskvu

Nú tæpum 30 árum síðar eru Íslendingar aftur mættir til Moskvu og verkefni laugardagsins risavaxið sem fyrr. Líkindin eru því nokkur þegar kemur að hinum ytri aðstæðum. Andstæðingurinn er stjörnum prýtt silfurlið Argentínu frá HM 2014. Argentínska liðið er í 5. sæti á styrkleikalista Alþjóða knattspyrnusambandsins. Messi, Agüero, Di María, Higuaín og Mascherano. Nú er hins vegar spurning hvernig strákarnir okkar ná að mótivera sig áður en þeir ganga inn á leikvanginn. Ef þeir mæta andstæðingnum með hjartað á réttum stað, standa vörnina og nýta aukaspyrnur og innköst er full ástæða til bjartsýni. Rétt eins og í maí 1989 eigum við okkar fulltrúa úr heimabyggð í íslenska landsliðshópnum. Ef sagan endurtekur sig mun einn þeirra skjótast upp á stjörnuhimininn á laugardaginn og skora markið í Moskvu. Markið sem breytti öllu. Áfram Ísland!

Fleiri myndir og markið fræga í Moskvu má sjá á www.grenndargral.is.

https://youtu.be/dX4ghFcb69w

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó