Flutti heim til Akureyrar og opnaði kaffihús í HofiMynd af Silju: Sunna Ben

Flutti heim til Akureyrar og opnaði kaffihús í Hofi

Rithöfundurinn Silja Björk Björnsdóttir er nýr rekstrarstjóri kaffihússins BARR sem opnaði nýlega í Hofi. Silja, sem flutti aftur til Akureyrar frá Reykjavík til þess að taka að sér starfið, segir að það hafi verið stórkostlegt að fá að taka þátt í því að opna kaffihúsið með Menningarfélagi Akureyrar.

„Sjálf var ég frekar óviss með flutninga fjölskyldunnar norður til Akureyrar, eftir að hafa komið okkur vel fyrir í borginni síðustu árin en þegar mér bauðst þetta starf þýddi ekkert annað en að láta slag standa. Hér var strax tekið svo vel á móti mér, innilega góður starfsandi og gleði innanhúss sem gerir alla daga svo létta og góða,“ segir Silja í spjalli við Kaffið.

Heimsfaraldurinn hafði mikil áhrif

Silja segir að flutningarnir heim hafi gengið vel og það hafi verið mikil gleði að fá svona skemmtilegt starf í heimabænum. Silja hafði verið atvinnulaus frá því í byrjun Covid-19 faraldursins og fjölskyldan ákvað að flytja norður þegar þau sáu fram á að missa íbúðina sína í höfuðborginni.

„Þá fórum við svona að velta vöngum og ákváðum að kannski væri tími til kominn að prófa eitthvað nýtt. Foreldrar mínir og fjölskylda búa hér og það kom alveg flatt upp á þau að ég ætlaði að flytja aftur “heim”, því ég var alveg föst á því að það myndi aldrei gerast. En svo bara breytast hlutirnir, bæði það að eignast barn og lenda í heimsfaraldri setti hlutina í annað samhengi svo það er ofboðslega gott að vera komin aftur heim í fjörðinn fagra og eins og ég segi, skemmir alls ekki að hafa fengið starf sem veitingastjóri Menningarfélagsins og fá að setja upp eigið kaffihús – það er bara draumur.“

Eitt fallegasta hús landsins

Silja segir staðsetninguna í Hofi bjóða upp á ýmislegt og stefnir á að mynda góða stemmningu og gott andrúmsloft á staðnum.

„Hof er auðvitað eitt fallegasta hús landsins, dásamlegir stuðlabergsveggirnir hérna utan á og svo auðvitað nóg rými að innan, fyrir allskonar skemmtilega viðburði og húllumhæ. Kaffihúsið sjálft er staðsett í veitingarýminu og þaðan er auðvitað dásamlegt útsýni yfir smábátana og sjóinn, eitthvað sem hvergi fæst annars staðar. Við munum síðan klárlega nýta rýmið okkur í hag með allskonar pop-up viðburðum í samstarfi við veitingastaði hér fyrir norðan og svo að sunnan líka, verðum með vínsmakkanir og erum til í að prófa hvað sem er til þess að auðga menninguna í bænum.“

Mynd: Krista Björk

„Menning er nefnilega ekki bara leiklist og tónlist, menning verður til allstaðar þar sem fólk kemur saman og kaffihús eiga sér auðvitað sérstaka menningu. Á BARR verður lögð áhersla á góða þjónustu og góða stemmningu, litla viðburði og gott andrúmsloft,“ segir Silja.

Veitingar úr héraði

Silja segir að það hafi strax verið ákveðið að BARR gæti orðið vettvangur fyrir veitingar úr héraði og að Menningarfélagið myndi reka kaffihús sem myndi stuðla að samstarfi innanbæjar.

„Við ákváðum að taka dýrindis súrdeigsbrauð, snúða og sætmeti frá Böggvisbrauði á Dalvík, allar samlokurnar og súpan kemur frá Múlabergi og kökurnar koma frá snillingunum á Orðakaffi. Kaffibaunirnar og telaufin eru frá Te & Kaffi, enda var ég kaffibarþjónn og þjálfari þar í mörg ár og veit að þaðan koma ekkert nema vörur úr hæsta gæðaflokki. Við erum svo með úrval lífrænna vína og náttúruvína frá Berjamó, verðum með Pimm’s könnur á drekkutíma og munum á næstu dögum taka inn allskonar micro bjóra frá brugghúsum hérna fyrir norðan.“

Mynd: Krista Björk

Heillaðist af kaffimenningu í starfi sínu hjá Te & Kaffi

Silja hefur haft nóg að gera í Reykjavík síðan hún flutti þangað haustið 2013. Hún lærði kvikmyndafræði í háskóla en tók sér hlé til þess að vinna fyrir Sagafilm. Hún fór svo í reisu með kærastanum og fékk starf hjá Te & Kaffi þar sem hún segist hafa heillast af kaffimenningu fyrir alvöru.

„Starfið hjá Te & Kaffi átti fyrst að vera tímabundið en ég vann mig upp og varð verslunarstjóri og svo fljótlega eftir það þjálfari og undir lokin var ég með umsjón yfir öllu fræðslu- og kennsluefni fyrirtækisins, bæði inn á við og út á við. Samhliða Sagafilm var ég líka þjónn og barþjónn á KOL Restaurant og elskaði að vera í veitingageiranum. Unnusti minn er matreiðslumeistari að mennt og við erum mikið matarfólk, þannig það hefur verið frábært að fá tækifæri að spreyta mig á mínum eigin rekstri en með hann svona hvíslandi í eyrað á mér.

Silja hefur einnig verið dugleg í því að beita sér fyrir betra aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og upprætingu fordóma í garð geðsjúkra á Íslandi.

„Ég vann úr mínum áföllum í bókinni Vatnið, gríman og geltið sem kom út rétt fyrir þriðju bylgjuna í fyrra og gaf svo út Lífsbiblíuna með Öldu Karen Hjaltalín núna í janúar, við stórkostlegar viðtökur. Og já, sat ekki auðum höndum í samkomubanninu heldur kláraði ég líka loksins BA í kvikmyndafræði við HÍ. Þannig það er svona eitt og annað sem ég hef verið að brasa í borginni undanfarin átta ár,“ segir Silja.


UMMÆLI