Ásdís í skýjunum eftir ótrúlegan vetur: „Það er búið að vera svo gaman hjá okkur“

Ásdís í skýjunum eftir ótrúlegan vetur: „Það er búið að vera svo gaman hjá okkur“

Íslandsmeistarinn Ásdís Guðmundsdóttir átti frábært tímabil hjá KA/Þór í handbolta í vetur. Ásdís var í lykilhlutverki í liðinu og þá spilaði hún sína fyrstu landsleiki fyrir Ísland. Ásdís segist vera í skýjunum með árangurinn.

„Þetta er ótrúlegt, ólýsanleg tilfinning, ég held ég muni ekkert fatta þetta á næstunni. Maður er í skýjunum. Að vinna alla titla, það er eitthvað sem alla íþróttamenn dreymir um og það varð að veruleika,“ segir Ásdís í spjalli við Kaffið.

Ásdís segir að eftir veturinn standi liðsheildin og gleðin hjá KA/Þór upp úr. „Það er búið að vera svo gaman hjá okkur í vetur. Ég held að allir sjái það og taki eftir. Gleðin skín svo í gegnum liðið okkar og hún er einlæg og alvöru.“

Hún segir þá að stuðningsfólk liðsins og fólkið í kringum liðið hafi verið ómetanlegt. „Fyrst og fremst vil ég þakka stuðningsmönnunum okkar fyrir og öllu fólkinu í kringum liðið okkar. Stjórnin okkar er búin að vera á fullu í allann vetur. Það er ekki sjálfsagt að eiga svona gott fólk á bakvið sig. Þau eru meiriháttar! Mér finnst standardinn búinn að hækka þvílíkt í kvennaboltanum í vetur. KA/Þór á stórann hlut í því og eiga hrós skilið fyrir það.“

Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson

„Frá því ég byrjaði í meistaraflokki 14 ára hafa hlutirnir breyst mikið. Umgjörðin í kringum liðið okkar í dag er til fyrirmyndar. Það hafa margir lagt hönd á plóg í því að byggja upp liðið sem í dag uppsker alla titlanna. Við erum flest allar uppaldar í KA/Þór og það er mikilvægt fyrir yngri flokka starfið. Við erum fyrirmyndir í félögunum. Þegar ég var yngri hafði ég ekki svona fyrirmyndir til þess að líta upp til en núna erum við með heilt lið af flottum stelpum sem eiga eftir að blómstra enn meira. Framhaldið er óskrifað blað, við ætlum að halda áfram að bæta okkur og verða ennþá betri. Svo langar mig að minna á að Breytum leiknum er ekkert lokið, við verðum að halda þeirri vegferð áfram.“

Sjá einnig: Íslandsmeistararnir fengu höfðinglegar móttökur á Akureyrarflugvelli

Ásdís segir að magnaður árangur KA/Þór í vetur hafi ekki komið henni neitt sérstaklega á óvart. Eftir sigur á Fram í meistarar meistaranna í haust hafi hún fundið hvað liðsfélagarnir hefðu mikla trú á sjálfum sér og hvor annarri.

„Þá fyrst fann ég þessa tilfiningu „hey vá við getum þetta“. Síðan þá var þetta bara stígandi hjá okkur, sigurleik eftir sigurleik. Við vorum agaðar, rólegar, höfðum trú á okkur allann tímann og lögðum hart að okkur,“ segir Ásdís.

Ásdís er samninglaus í augnablikinu og hún segir að framhaldið sé ekki alveg komið á hreint. Það sé þó erfitt að ætla að yfirgefa besta lið landsins.

„Maður er í besta liðinu á landinu í dag og erfitt að ætla sér að fara frá því. Stefnan er alltaf út einn daginn, það er bara spurning hvenær.“

Ásdís var verðlaunuð fyrir frábæra frammistöðu sína með KA/Þór í vetur með sæti í A landsliði Íslands. Ásdís spilaði sína fyrstu landsleiki í mikilvægum sigrum gegn Grikklandi og Lit­há­en og skoraði 8 mörk.

Sjá einnig: Ásdís og Rut í landsliðshóp

„Persónulega stóð A-landsliðið klárlega upp úr hjá mér í vetur. Ég bjóst ekki við kallinu svona snemma á ferlinum. Þó markmiðið hafi alltaf verið að komast þangað. Það er geggjað að vera hluti af þeim hópi og fá að taka þátt í því verkefni. Þetta var langur tími sem við vorum saman og þetta fer klárlega allt í reynslubankann. Metnaðurinn er mikill hjá okkur stelpunum og hjá þjálfurunum. Ég er spennt fyrir komandi tímum hjá A-landsliðinu,“ segir Ásdís.

Sambíó

UMMÆLI