Bæjarstjórn krefst þess að fá sömu verð og í Reykjavík

Markmiðið er að hefja millilandaflug frá Akureyrarflugvelli.

Flugvélaeldsneyti vegna millilandaflugs er mun dýrara á Akureyri og Egilsstöðum en í Keflavík og Reykjavík vegna þess að niðurgreiðsla á flutningskostnaði nær ekki til eldsneytis vegna millilandaflugs í núgildandi lögum. Þessu vill bæjarstjórn breyta.
Í sameiginlegri bókun, sem samþykkt var einróma með 11 atkvæðum, skorar bæjarstjórn á stjórnvöld og tilvonandi þingmenn, að breyta þessum lögum um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara.

Flugvélaeldsneyti er forsenda þess að koma á millilandaflugi frá Akureyri og Egilsstöðum en áhugi íbúa fyrir millilandaflugi beint frá Akureyri hefur aukist verulega síðustu ár. Í bókuninni segir:

„Ljóst er að verð á eldsneyti getur skipt sköpum í því að þetta verði að veruleika og því afar mikilvægt að nú þegar verði tryggt að verð á flugvélaeldsneyti til notkunar í millilandaflugi sé það sama á öllum alþjóðaflugvöllum landsins. Með tilkomu Flugþróunarsjóðs átti að veita flugfélögum styrki til að hefja millilandaflug til Akureyrar og Egilsstaða en eins og staðan er nú fer megnið af áætluðum styrk til jöfnunar á eldsneytisverði sem aldrei var ætlunin í upphafi. Það er því ófrávíkjanleg krafa bæjarstjórnar að jöfnun á flutningskostnaði á flugvélaeldsneyti verði að veruleika sem allra fyrst.”

UMMÆLI