Eitraður dugnaður

Eitraður dugnaður

Hrefna Rut Níelsdóttir skrifar:

Ég er ánægð með að Kristín Þóra leikkona opni á umræðu um streitu og örmögnun, hún er hugrökk og flott kona. Ég er með margar hugleiðingar tengdar þessu eftir fyrstu önnina í meistaranámi í náms- og starfsráðgjöf, þá sérstaklega varðandi þennan ofsahraða í samfélaginu. Viðhorfið að fólk eigi að vera harðduglegt og að það sé alltaf brjálað að gera, annars sé það „aumingjar“ eða að fólk nenni bara ekki lengur að vinna.

Sjá frétt á vef RÚV: „Mér fannst þetta vandræðalegt, mér fannst ég aumingi“

Það að þurfa alltaf að vera besta útgáfan af sjálfum sér er streituvaldandi hugmynd. Þessi óraunhæfa pressa um hámörkun og fullkomnun á öllum sviðum getur valdið mikilli vanlíðan og krafist þess að andlegri heilsu og velferð, fjölskyldu, vinum eða áhugamálum sé fórnað á móti. Við vitum að það skiptir miklu máli að þessir þættir séu í jafnvægi við vinnu/skóla til að stuðla að vellíðan og viðráðanlegri streitu. Fólk er afkastameira og ánægðara í vinnu ef því líður vel. Þess vegna er stytting vinnuvikunnar mjög jákvætt skref að mínu mati, þegar og þar sem hún er vel framkvæmd. Þessi hugmynd um 8 tíma vinnudag, 5 daga vikunnar er barn síns tíma og ekki náttúrulögmál. Tæknin og þekkingin hafa auðveldað okkur vinnuna mikið. Breytt umhverfi og gildi ættu að endurspeglast í vinnutíma. Vinna er að sjálfsögðu nauðsynleg og gefandi partur af lífinu svo lengi sem það ríki gott jafnvægi.

Minn draumur er að sjá styttingu vinnuvikunnar færast yfir á leikskólakerfið enda eru 8- 8,5 klst. langur dagur fyrir börn. Það gefst ekki mikill tími fyrir eðlilegt og gefandi fjölskyldulíf í hversdagsleikanum þegar við komum öll þreytt heim eftir langan dag. Það er ekki skrítið að skilnaðartíðni sé há þegar tíminn til að rækta sjálfan sig, fjölskyldu og sambönd er svona takmarkaður.

Nám er 100% vinna ef maður ætlar að sinna því af heilum hug og eiga sér líf fyrir utan það. Það að 70% háskólanema vinni með skóla á Íslandi er eitt dæmi um þessa ofurmennaáráttu. Þessi normalísering á því að það sé eðlilegt að vera í fullu háskólanámi með jafnvel fullri vinnu og að sinna fjölskyldulífi er galið álag. Ég hef séð svo mörg dæmi um hversu mikilli streitu og vanlíðan það veldur að geta hvergi verið til staðar að fullu. Fólk ber sig saman við aðra sem virðast vera með allt sitt á hreinu, en sér auðvitað bara þessa glansmynd og veit ekki hvað liggur í raun að baki. Ekki skrítið að fólk á aldrinum 30-39 ára sé að lenda á vegg og verða að öryrkjum vegna streitu og álags, sérstaklega konur sem sinna almennt meira þriðju vaktinni og tilfinningalegu byrðinni gagnvart börnum og öðrum fjölskyldumeðlimum. Ég hef þó trú á því að það sé eitthvað að breytast með vitundarvakningu. Það er brýn þörf á breyttri lífssýn og menningu.

Við ættum að líta frekar til annarra norðurlandaþjóða varðandi viðhorf gagnvart fjölskyldulífi og námi. Þar eru námsstyrkir og betra kerfi sem setur fjölskylduna í forgang. En það má ekki gleyma að íslenska námslánakerfið hefur tekið skref í rétta átt. Nú er hægt að fá rúm 40 þúsund í styrk með hverju barni á mánuði og 30% niðurfellingu skuldar við lok náms (og hægt að breyta í óverðtryggt lán). Upplifun mín er sú að margir á mínum aldri hafa neikvæða ímynd af LÍN (nú Menntasjóður námsmanna) og þekkja ekki nýja kerfið og ströggla með alltof marga bolta á lofti. Sjálf hef ég þurft að líta í eigin barm og hægja aðeins á náminu, enda vil ég njóta þess að vera með stelpurnar mínar og halda geðheilsunni.

Hugmyndin um ofur afköst hefur líka verið færð yfir á unglinga með því t.d. að þjappa saman framhaldsskólanum í 3 ár. Andleg heilsa framhaldsskólanema virðist hafa farið hrakandi. Áherslan á að unglingar vinni með skóla hefur verið mikil hér á landi. Eftir styttingu framhaldsskólans er mun erfiðara fyrir þau að sinna vinnu með skóla án þess að það bitni á líðan og gæði náms. Þetta er ekki jákvætt veganesti fyrir ungt fólk út í lífið.

Ég geri mér grein fyrir að aðstæður fólks eru allskonar og sumum hentar þessi lífsstíll. Sumir neyðast til þess að vinna mikið og vinna með háskóla til að framfleyta sér. Að sjálfsögðu getur vinna verið gagnleg með skóla upp að vissu marki. Við þurfum öll að finna mörkin okkar. Það eru mismunandi álagspunktar í lífinu en langvarandi álag og streita er hættuleg heilsu fólks og kostnaðarsamt fyrir samfélagið. Við þurfum að staldra við áður en það er of seint.

Kannski þurfum við líka að líta í eigin barm varðandi hvað skiptir okkur mestu máli í lífinu, tileinka okkur nægjusemi og eiga þá meiri tíma með fjölskyldu og vinum. Tíminn er það dýrmætasta sem við eigum og það kostar mikla fórn á tíma að kaupa alltaf það nýjasta og dýrasta. Það er t.d. hægt að fá flest allt notað sem er fallegt og umhverfisvænt í þokkabót.

Þetta eru svona mínar pælingar eftir þessa fyrstu önn, ég er mikill talsmaður jafnvægis í vinnu og fjölskyldulífi og vil sjá hugafarsbreytingar um hraðann, óraunhæfar kröfur og streituna í samfélaginu. Atvinnulífið, stéttafélögin, velferðarkerfið og við sjálf þurfum að vinna saman að hamingjusamara samfélagi. Ég gæti sem sagt skrifað heila ritgerð um þetta, og mun ábyggilega gera það að meginviðfangsefni í meistararitgerð minni.

Lífið er stutt, hugsum vel um okkur! 🧡


UMMÆLI