KÍTÓN heldur tónleika í Hofi á sunnudaginn

KÍTÓN heldur tónleika í Hofi á sunnudaginn

Eva Þyri Hilmarsdóttir og Erla Dóra Vogler.

KÍTÓN, Félag kvenna í tónlist, stendur í fyrsta sinn fyrir tónleikaröð með áherslu á klassíska tónlist. Auglýst var eftir þátttakendum meðal félagskvenna og barst fjöldi spennandi umsókna. Áhersla er jafnt á að flytjendur séu konur og að tónlistin sem flutt er sé eftir kventónskáld. Á dagskrá verða fjórir tónleikar á tímabilinu apríl til júní, bæði í Iðnó, Reykjavík og Hofi, Akureyri, samtals átta tónleikar.

Á tónleikunum í Hofi sunnudaginn 6. maí kl. 17.00 koma fram Erla Dóra Vogler, mezzósópran, og Eva Þyri Hilmarsdóttir, píanóleikari. Tónlistarkonurnar fagna aldarafmæli Jórunnar Viðar í ár með fjölda tónleika innan sem utan landsteinanna, og stefna á útgáfu geisladisks með söngverkum hennar.

Jórunn Viðar (1918-2017) er meðal dáðustu tónskálda þjóðarinnar og var mikill frumkvöðull á því sviði. Hún var fyrsta íslenska konan með próf í tónsmíðum og eina konan í Tónskáldafélagi Íslands í um tvo áratugi. Hún var fyrst Íslendinga til að semja kvikmyndatónlist, samdi fyrsta íslenska ballettinn og fyrsta píanókonsertinn í fullri lengd. Markmið tónleika Erlu og Evu er að kynna þann framúrskarandi og fjölbreytta arf söngljóða sem hún lét þjóðinni í té á starfsævi sinni.

Miðasala er á www.mak.is og við innganginn.
Tónleikarnir eru styrktir af Tónlistarsjóði, Tónlistarsjóði Hofs og Samkomuhússins og Akureyrarstofu.


UMMÆLI